Keflvíkingar blása á allar hrakspár Þrír leikir fóru fram í 3.umferð Símadeildarinnar í gær en umferðinni lýkur í kvöld með leik Akureyrarslag KA og Þórs klukkan 20:00. Leikmenn Keflavíkur sýndu það í gær að þeir ætla ekki að falla í sumar, en margir spáðu þeim þeirri ólukku. Þeir tóku á móti stórliði Fylkis úr Árbænum og komust yfir eftir u.þ.b. 20 mínútna leik. Jóhann R. Benediktsson var þar að verki með óvæntu þrumuskoti í þverslá og inn. Keflvíkingar bættu við öðru marki á 67.mínútu þegar Guðmundur Steinarsson renndi knettinum framhjá Kjartani Fylkismarkverði en Guðmundur var feiknarsterkur í þessum leik. Reynsluboltinn Sverrir Sverrisson minnkaði muninn með skallamarki tíu mínútum fyrir leikslok en nokkrum mínútum síðar innsiglaði Þórarinn Kristjánsson sigur Keflvíkinga, 3-1. Margir hafa sagt að vörn þeirra sé ekki sterk en annað var uppi á teningnum í gær þar sem Zoran Ljubicic fór fremstur í flokki.

Eftir stórt tap gegn Fylki á heimavelli í fyrstu umferð, settu margir spurningamerki við FH-liðið. En liðið sýndi hvers það er megnugt gegn KR-ingum í gær. Engin gæðaknattspyrna á ferðinni á varavelli FH-inga sem er mjög slæmur. Ég bara spyr: Hvernig lítur þá aðalvöllurinn út? Í upphafi leiksins áttu KR-ingar sláarskot og hver var þar að verki annar en Sigurvin Ólafsson. Langt síðan hann hefur verið í svona formi eins og hann er í nú. Nýji framherjinn hjá FH, Litháinn Valdas Trakys, var í byrjunarliðinu og reyndist dýrmætur fyrir FH því hann skoraði eina mark leiksins í seinni hálfleik eftir mikinn darraðadans í vítateig KR. Leikurinn einkenndist af baráttu en slæmt var að leikur KR var frekar ómarkviss eftir góða byrjun á mótinu.

Stórskemmtilegur leikur var á Skipaskaga þar sem Íslandsmeistararnir í ÍA freistuðu þess að ná í fyrstu stig sumarsins, en árangurinn var lítill. Grétar Hjartarsson átti stórleik í framlínu gestanna frá Grindavík. Eftir 60 mínútur var Grétar búinn að tryggja sér þrennu á meðan Skagamenn skoruðu ekkert. Nafni hans, Grétar Rafn Steinsson, minnkaði muninn fyrir ÍA en það dugði lítið því sigur Grindvíkinga á útivelli 3-1 var staðreynd. “Lykilleikmenn okkar hafa brugðist í upphafi móts og það sést ef skoðuð er skelfileg staða okkar. Við gröfum okkur upp úr þessari holu” sagði jaxlinn Ólafur Þórðarsson, þjálfari ÍA.

Keflavík – Fylkir 3-1
1-0 Jóhann R. Benediktsson (23)
2-0 Guðmundur Steinarsson (67)
2-1 Sverrir Sverrisson (81)
3-1 Þórarinn Kristjánsson (87)

FH – KR 1-0
1-0 Valdas Trakys (59)

ÍA – Grindavík 1-3
0-1 Grétar Hjartarsson (1)
0-2 Grétar Hjartarsson (10)
0-3 Grétar Hjartarsson (60)
1-3 Grétar Rafn Steinsson (66)