Noregur - Ísland 1-1 Íslenska landsliðið spilaði vináttulandsleik gegn Noregi í Bodö í gær. Eftir aðeins 5 mínútna leik kom Jóhannes Karl Guðjónsson Íslandi yfir með ótrúlegu marki úr aukaspyrnu af 40-45 metra færi! Um hálftíma síðar fékk Jóhannes, sem spilar með Real Betis á Spáni, aðra aukaspyrnu en átti þá skot í slá. Ole Gunnar Solskjær jafnaði metinn fyrir Noreg á 60.mínútu og úrslitin urðu 1-1. Eina umtalsverða færi Íslands í síðari hálfleik kom á seinustu mínútunni þegar Sævar Þór Gíslason var hársbreidd frá því að skora.

Atli Eðvaldsson hefur tekið þátt í fimm leikjum gegn Norðmönnum, þremur sem leikmaður og tveimur sem landsliðsþjálfari. Atli spilaði þrívegis gegn Noregi og Ísland sigraði í öll skiptin - 2-1 árið 1977 og 2-1 og 1-0 árið 1987. Ísland tapaði tvisvar fyrir Noregi á landsliðsárum Atla en hann var með í hvorugt skiptið.
Atli hefur síðan tvívegis stýrt landsliðinu gegn Noregi og í bæði skiptin orðið jafntefli. Fyrri viðureignin var fyrsti leikur Atla sem landsliðsþjálfari en þá gerðu liðin jafntefli á La Manga á Spáni, 0-0, í ársbyrjun 2000.

“Strákarnir sem spiluðu í kvöld eru margir rétt rúmlega tvítugir og hafa ekki leikið marga landsleiki. Þeir stóðu sig frábærlega enda hrósaði norski þjálfarinn okkur og sagði að það væri mjög erfitt að leika á móti íslenska liðinu. Kannski hentar leikaðferð Norðmanna okkur, en þeir eru með marga stóra dreka í liðinu en okkar strákar lögðu gríðarlega mikið á sig til að stöðva þá og hugrekkið var til fyrirmyndar hjá þeim öllum,” sagði Atli í viðtali við mbl.is.