Jæja, nú eru rúm tvö ár liðin frá því að íslenskir minimilljónamæringar ákváðu að fá sér sem svo eitt enskt félagslið til ða leika sér með og monta sig af við ættingja og vini. Liðinu gekk brösuglega í byrjun með frægasta þjálfara okkar landa, Guðjón Þórðarsson í fararbroddi, en allt endaði nú vel að lokum, eða næstum því.
Þegar maður les fréttirnar og heyrir í útvarpi og imbanum, þá finnst manni eins og langræknir og peningagráðugir fjárfestar og stjórnarmenn Stoke séu hundfúlir út í þjálfara sinn vegna þessa hve ófús hann var til að brosa eftir pöntun og láta eins og þæg strengjabrúða í höndum íslenskra stjórnarmanna sem eru eins og börn með flottasta leikfangið sitt. Guð forði því að einhver mótmæli og segi orð um djásnið þeirra.

Framkoma íslensku stjórnarmannana við Guðjón angar svolítið af þeim hætti sem er á uppsetningu fyrirtækja hér á íslandi. Yfirmennirnir séu hershöfðingjar og undirmennirnir peð í her sem skuli alls ekki lyfta vísifingri eða sé með röfl.
Þessir íslensku “ævintýramenn” líta á Stoke sem tilraun til að græða pening og vera frægir og virtir hér á okkar litla landi fyrir að eiga fótboltafélag í tjallalandi.

Tímasetning uppsagnar Guðjóns sýnir það vel á hve lágu plani hugsun þessara manna er. Þeir eru í fýlu og vildu gera þjálfaranum eitthvað vont til að hefna sín fyrir orðhák í fjölmiðlum. Amk virðast engin sérstök rök fyrir hendi. Þjálfarinn sem kemur liði sínu upp um deild (sem var nú stefnan í upphafi) er rekinn með eins snubbóttum hætti og hægt er.
—–