Það væri synd að segja að Gróa á Leiti sé ekki á fullu þegar Nicolas Anelka umræðan er annars vegar. Ekkert nýtt er þar í spilunum og er staðan nákvæmlega svona:

Það er fyrir talsverðu síðan búið að semja um kaupverðið á kappanum og samkvæmt ábyggilegum heimildum er það rúmar 12 milljónir punda. Sögur hafa reyndar gengið á víxl um það að hann sé búinn að skrifa undir og svo einnig að Anelka sé að fara að spila síðasta leik sinn fyrir Liverpool á morgun og að Freddie Kanoute sé á leið til félagsins. Þessar sögur eru ekki nýjar og halda líklega áfram að poppa upp þangað til málið verður klárað.

Það er best að taka það fram að engin snuðra hefur hlaupið á þráðinn í samningaviðræðum við Anelka og hans umboðsmenn. Þessi 60.000 pund sem verið er að tala um að hann krefjist eru tilbúin upphæð fjölmiðla, samkvæmt þeim sem eitthvað þekkja inn á málið. Houllier hefur gert það ljóst lengi að þetta verði ekki skoðað fyrr en eftir síðasta leikinn, sem er á morgun. Þá fyrst ætti að vera hægt að fara að spá alvarlega í þetta. Málið er bara það að það hefur akkúrat ekkert breyst í þessu máli síðasta mánuðinn og þaðan af lengur. Staðan er sem sagt sú sama og verður þetta rætt eftir helgi. Houllier hefur sagt að hann hafi áhuga á að hafa leikmanninn áfram og hann eigi bara eftir að taka endanlega ákvörðun um það. Anelka hefur einnig hamrað á því að hann óski þess heitt að vera hjá Liverpool til frambúðar.

Eins og staðan er í dag, þá ætti það ekki að koma neinum á óvart þótt kaupin á Anelka yrðu tilkynnt formlega næstu daga.