ÍA vann Færeyjarmeistarana FITUR er sjóður sem á að efla samskipti Íslends og Færeyja. Þessi sjóður ásamt færeysku flugfélagi (Atlantic Airways) hafa komið af stað nýrri keppni sem ber nafnið Atlantic Cup. Þar mætast einu sinni á ári meistaraliðin frá löndunum tveimur. Fyrsti leikurinn fór fram í Þórshöfn á sunnudag og þar náðum við Íslendingar 1-0 forystu í einvíginu. Skagamenn sigruðu B36 með tveimur mörkum gegn einu. ÍA náði forystunni með marki frá Ellert Jón Björnssyni og Grétar Rafn Steinsson bætti öðru marki við í byrjun seinni hálfleiks. Fyrrum leikmaður Leifturs, John Peterson, minnkaði muninn fyrir B36 sem var nálægt því að krækja í jafntefli undir lokin. Næsta vor mætast meistaralið þjóðanna hér á landi, það verður spennandi að sjá hvort ÍA verði þá aftur með?

Mér finnst þessi hugmynd með þennan leik mögnuð og minnir þetta mig á Meistarakeppni KSÍ sem var fyrir nokkrum árum en var lögð niður. Þar mættust Íslandsmeistararnir og Bikarmeistararnir hér heima í leik um titilinn Meistarar meistaranna. Það er spurning hvort að það megi ekki endurvekja þá keppni, nú þegar knattspyrnuhallir rísa um land allt.