Alex Ferguson hefur sagt Dwight Yorke að nú sé kominn tími til að hann fari frá Old Trafford. Yorke hefur ekki spilað með aðalliðinu í nærri þrjá mánuði og Fergie telur að það hljóti að verða gott fyrir framherjann að komast í burtu. “Dwight verður að fara. Hann verður að fá að spila annars staðar, það er augljóst. Hann hefur gert mjög góða hluti fyrir okkur og mun gera það einhvers staðar annars staðar,” sagði Fergie.
Það bendir margt til að Yorke fari til Blackburn en þar myndi hann leika á ný með gamla félaganum sínum, Andy Cole. Graeme Souness hefur lýst yfir áhuga á Yorke en segist vilja tryggja áframhaldandi veru liðsins í úrvalsdeildinni áður en hann fer að kaupa nýja menn. “Um leið og sætið er tryggt förum við að leita eftir gæðamönnum og það er ekki svo langt síðan að Dwight og Andy Cole voru bestir í Evrópu,” sagði stjórinn.

Boltinn.is