Saga Liverpool Football Club, sigursælasta félags enskrar knattspyrnu, hefst í raun með sögu annars félags St. Domingo´s Football Club, sem var stofnað 1878. Þetta félag hlaut árið eftir nafnið Everton. Liðið lék fyrst á Stanley Park á árunum 1878 til 1882 og svo á Priory Road frá 1882 til 1884 en þá hóf liðið að leika á Anfield Road. Árið 1892 upphófust deilur stjórnar Everton við sinn eigin forseta John Houlding, um leiguna á vellinum. John, sem kallaður var King John of Everton, var auðugur athafnamaður sem lét víða til sín taka. Til dæmis varð hann borgarstjóri Liverpoolborgar árið 1897. John auðgaðist þó mest á brugghúsi sínu sem framleiddi mjöðinn góða “Houlding Sparkling Ales”. En John var í þeirri einkennilegu stöðu að eiga hlut í landsvæðinu sem Anfield var byggt á. Fundur var haldinn um málið þann 12. mars. Niðurstaða fundarins varð sú að Everton flutti frá Anfield með allt sitt hafurtask og hóf leik á Goodison Park, handan Stanley Park garðsins. Aftur var fundað 15. mars heima hjá Houlding og þá dagsetningu má allt eins telja sem afmælisdag félagsins. John Houlding lagði sem sagt aldeilis ekki árar í bát og stofnaði sitt eigið knattspyrnufélag og skírði það Everton, sama nafni og gamla félagið hans. Enska knattspyrnusambandið skar úr um að hann þyrfti að velja sér annað nafn því að það væri ekki hægt að hafa tvö lið með nákvæmlega sama nafn. Houlding fór að ráðum vinar síns William E. Barclay, fyrrum ritara Everton, og ákvað að kalla það Liverpool Football Club. En sá hængur var á að það var rúgbýlið í borginni sem bar það nafn en sem fyrr dó Houlding ekki ráðalaus og skeytti Association þar inn á milli og nýja félagið hét því Liverpool Association Football Club. Meirihlutinn af starfsliðinu og leikmönnunum héldu kyrru fyrir í Everton þannig að nú þurfti Houlding að byggja lið upp frá grunni. Írinn “hinn heiðarlegi” John McKenna var hliðhollur Houlding og eins William E Barclay og hann sá um að finna nýja liðsmenn fyrir félagið. John Houlding var stofnandi Liverpool AFC en McKenna var maðurinn á bak við velgengni liðsins á vellinum. McKenna fékk 500 sterlingspund frá John Houlding til að byggja upp lið og hann hélt rakleiðis til Skotlands þar sem hann keypti 13 Skota og af því leiddi að Liverpool var kallað “Lið Makkanna” (Team of all the Macs) því að föðurnöfn þeirra flestra hófust á Mc. John fór aldrei fram á endurgreiðslu á pundunum 500. Frá 1892 til 1896 teljast John McKenna og William Barclay báðir framkvæmdastjórar Liverpool. Það gekk betur hjá þeim félögum en þegar Liverpool reyndi þetta fyrirkomulag á ný meira en öld síðar þegar Roy Evans og Gerard Houllier héldu saman um stjórnartaumana.

Liverpool sótti um inngöngu í ensku deildarkeppnina en var hafnað og léku því í Lancashire-héraðsdeildinni til að byrja með. Þann 1. september árið 1892 lék Liverpool AFC sinn fyrsta leik á Anfield gegn Rotherham í vináttuleik. Annálar greina frá því að John Houlding hafi tekið upphafsspyrnuna í leiknum. Liverpool vann 7-1 og að sjálfsögðu var það Skoti Malcolm McVean að nafni sem skoraði fyrsta mark félagsins snemma leiks. Völlurinn tók um 20.000 áhorfendur en það var frekar tómlegt um að litast á fyrsta heimaleik Liverpool því aðeins 100 manns sáu sér fært að mæta á staðinn en 10.000 áhorfendur komu sér fyrir sama dag á Goodison og horfðu á Everton. Tveimur dögum síðar lék Liverpool fyrsta kappleik sinn í Lancashiredeildinni fyrir framan 200 áhorfendur. Andstæðingarnir voru Higher Walton og aftur vann Liverpool stórsigur 8:0. Allir leikmennirnir sem léku leikinn fyrir hönd Liverpool voru skoskir ef ættfræðin hefur ekki brugðist heimildarmönnum. Frábær frammistaða þessa nýstofnaða liðs spurðist út. Það var varla að þeir Houlding og McKenna trúðu sínum eigin augum þegar 3.000 áhorfendur mættu á Anfield 10. september er Liverpool bar sigurorð af Stockport og fór á topp deildarinnar. Menn höfðu verið efins um að nægur áhugi væri í borginni til að halda uppi tveimur liðum en Liverpool fór mikinn í leikjum tímabilsins og vann auðveldan sigur í Lancashiredeildinni. Hápunktur leiktíðarinnar var án efa fyrsta viðureign Everton og Liverpool sem fram fór í Liverpool Senior-bikarkeppninni. Mikill skjálfti var á báðum vígstöðvum fyrir leikinn enda mikill heiður í húfi. Augljóslega var skjálftinn heldur meiri í herbúðum Everton því að forráðarmenn félagins tóku þá ótrúlegu ákvörðun að setja á tilgangslausan leik gegn smáliðinu Renton sama dag. Þannig að ef Liverpool myndi fara með sigur af hólmi þá sýndu sögubækurnar fram á það að sökum leikjaálags þá gat Everton ekki stillt upp sínu sterkasta liði gegn Liverpool og sigurinn myndi því vera lítils virði. Leiknum lauk með 1-0 sigri Liverpool og var harkan mikil í leiknum. Eftir leik mótmæltu leikmenn Everton gríðarlega vegna þess sem þeir töldu vera þeim óhliðholla dómgæslu. Vegna æsings leikmanna og forráðamanna Everton var ekki hægt að hafa verðlaunaafhendingu að leik loknum og fengu leikmenn Liverpool bikarinn ekki fyrr en á næsta heimaleik. John hafði gaman af og sagði skemmtilegt að sjá gamlan kunningja að nýju! Átti hann þar við bikarinn góða því Everton hafði unnið hann á meðan hann var í stjórn þar á bæ.

Vera Liverpool í Lancashiredeildinni stóð aðeins yfir í eitt tímabil. Knattspyrnusambandið ákvað að fjölga liðum í 2. deild úr 12 í 15 og McKenna sá gullið tækifæri til að Liverpool gæti loksins keppt á landsvísu. Félagið átti ekki fúlgur fjár enda meðaláhorfendafjöldi á Anfield rétt undir 2.000 manns. McKenna sendi símskeyti til London án þess að fá til þess tilskilin leyfi frá stjórn Liverpool: “Liverpool sækir um þátttökurétt í 2. deild” og skrifaði undir Barclay sem var opinber framkvæmdastjóri liðsins. Það hefur því komið William E Barclay talsvert á óvart er honum barst skeyti frá Knattspyrnusambandinu: “Liverpool varð fyrir valinu. Komið til London á morgun klukkan þrjú til að ákveða leikjaniðurröðun”. John McKenna sannfærði stjórnarmenn um að þetta væri rétta leiðin og fór til London sem fulltrúi félagsins til þess að ganga frá formsatriðum.

Liverpool lék enn í bláum og hvítum peysum og dökkum buxum þegar það lék sinn fyrsta deildarleik í sögu félagsins á útivelli gegn Middlesbrough Ironopolis þann 2. september 1893. Malcolm McVean kom Liverpool á bragðið og Joe McQue bætti öðru marki við með frábæru langskoti. Liðið var skipað eftirtöldum leikmönnum: McOwen, Hannah, McLean, Henderson, McQue, McBride, Gordon, McVean, M. McQueen, Stott og H. McQueen. Fyrsti heimaleikurinn í deildinni fór fram á Anfield Road 9. september gegn Lincoln og Liverpool byrjaði vel með 4:0 sigri fyrir framan 5.000 áhorfendur. Liverpool var ekki stöðvað þetta tímabil og hreppti efsta sæti 2. deildar án þess að tapa leik sem var einstakt afrek. En reglurnar sögðu til um að ef liðið vildi komast í 1. deild þá þyrfti það fyrst að leggja af velli neðsta lið 1. deildar sem var í þessu tilviki Newton Heath sem var betur þekkt síðar sem Manchester United. Liverpool vann 2-0 á Anfield og leiðin upp í 1. deildina var greið. Árið 1894 var byggð stúka á Anfield Road þar sem núna er aðalstúkan, Main Stand. Þessi stúka þótti glæsileg og stóð lengi. En ekki var öll aðstaða til fyrirmyndar því að enn voru ekki komin búningsherbergi við völlinn. Leikmenn skiptu um föt á Sandon hótelinu sem var í um eitthundrað metra fjarlægð frá Anfield og þaðan gengu leikmenn til leiks meðal áhorfenda sem voru á leið á leikinn
Liverpool skipti yfir í rauða litinn, sem var einkennislitur Liverpoolborgar, árið 1896 og lék nú í rauðri treyju og hvítum buxum. Þó ber ekki öllum heimildum saman um hvaða ár rauði liturinn var tekinn upp. Liverfuglinn “Liverbird”, sem hefur lengi verið merki borgarinnar, birtist ekki fyrr en árið 1901 í merki félagsins. Styrkleikamunurinn á deildunum var mikill og fór ekki betur en svo að félagið hrapaði í 2. deild á ný vorið 1895. En liðið fór beinustu leið upp aftur. Liðið fór á kostum í 2. deildinni leiktíðina 1895-96 og setti fjölmörg met í markaskorun og sum þeirra standa enn. Liðsmenn gengu berserksgang við mörk andstæðinga sinna og alls skoraði liðið 106 mörk í aðeins 30 leikjum. Þetta er enn met yfir skoruð deildarmörk á einni leiktíð hjá félaginu. Tíu sinnum skoraði liðið fimm mörk eða fleiri í leik. Á þessari leiktíð vann Liverpool sinn stærsta sigur í deildarleik þegar liðið lagði Rotherham 10:1 á Anfield þann 18. febrúar 1896. Allen 4, McVean 3, Ross 2 og Becton skoruðu mörkin. John McKenna vildi minnka afskipti sín af liðinu og gerðist ráðsettur stjórnarformaður. Fyrir leiktíðina 1896-97 réði hann Skotann Tom Watson til félagsins. Tom hafði getið sér góðs orðspors sem framkvæmdastjóri Sunderland sem vann enska meistaratitilinn árin 1892, 1893 og 1895. McKenna bauð honum dágóða launahækkun og mikilvægt skref í átt að meistaratitli var stigið. Liverpool lét fljótt að sér kveða í stórkeppnum og á fyrstu leiktíð Tom hjá félaginu komst liðið í undanúrslit F.A. bikarsins. Leikið var gegn stórliði Aston Villa á Bramall Lane í Sheffield en tapaði 3:0. Leikmenn Liverpool höfðu greinilega lært sína lexíu og eftir þokkalegt tímabil í 1. deild, lauk Liverpool tímabilinu 1898-1899 í öðru sæti og komst í undanúrslit F.A. bikarsins að nýju. Sannkölluð maraþonviðureign var fyrir höndum við Sheffield United. Fyrst léku liðin í Nottingham og gerðu 2:2 jafntefli. Næst var haldið á Burnden Park í Bolton og aftur skildu liðin jöfn 4:4. Þriðji leikurinn fór fram á Fellowfield í Manchester. Mikill áhugi var á leiknum og 30.000 áhorfendur tróðu sér inn á leikvanginn. Liverpool leiddi 1:0 en því miður varð að flauta leikinn af. Ástæðan var sú að áhorfendur fóru hvað eftir annað inn á völlinn vegna þess að áhorfendastæðin rúmuðu ekki mannfjöldann. Fjórði leikurinn varð því staðreynd og fór hann fram í Derby. Í þeim leik hafði Sheffield betur 1:0. Áttatíu og einu ári síðar lék Liverpool aftur fjóra leiki í undanúrslitum F.A. bikarsins þá gegn Arsenal. Líkt og 1899 töpuðu þeir fjórða leiknum 1:0.

Fyrstu meistarar Liverpool AFC 1900-1901. Aftasta röð (frá vinstri): Ottey, Goliver, McGuigan, Foster, S. Hunter, J. Hunter, Howell. Miðröð (einungis leikmenn): Soulsby, Wilson, Raybould, J. Robertson, Perkins, W. Goldie. Fremsta röð: Walker, Dunlop, Raisbeck, Cox, T. Robertson.

Liðið var á uppleið og ofar var ekki komist í bili þegar fyrsti meistaratitill Liverpool leit dagsins ljós árið 1901. Liverpool var fimm stigum á eftir Sunderland sem var í efsta sæti [hafa ber í huga að tvö stig voru gefin fyrir sigur] er nálgaðist lok tímabils en fjórir sigrar í síðustu fimm leikjunum tryggði liðinu titilinn. Sigurinn var gulltryggður í síðasta leik á útivelli gegn W.B.A þegar John Walker skoraði eina mark leiksins. Daily Express óskaði Liverpool til hamingju: “Liðið frá Lancashire hefur komist á toppinn þrátt fyrir misjafna byrjun á tímabilinu. En form þeirra að undanförnu hefur leitt til mikillar velgengni og Herra Tom Watson og lið hans eiga hrós skilið fyrir að vinna til æðstu verðlauna deildarinnar. Þeir héldu heim á leið samdægurs og þetta var eftirminnilegur dagur fyrir leikmennina og þann mikla mannfjölda sem beið þeirra á aðalbrautarstöðinni.” Sam Raybould var markakóngur liðsins á leiktíðinni með 16 mörk í deildinni en besta árangri náði hann leiktíðina 1902-03 þegar hann skoraði 31 deildarmark í 33 leikjum. Þetta var met hjá Liverpool og stóð til leiktíðarinnar 1930-31 þegar Gordon Hodgson skoraði 36 deildarmörk. Raybould lék alls 224 leiki og skoraði 127 mörk á ferli sínum hjá Liverpool. Liverpool bætti líka Liverpool Senior bikarnum í safnið sem var keppni milli liða í Liverpool og nærsveitum. Sá bikar skipti miklu á þessum árum því Everton var jú meðal liða sem þátt tóku í keppninni. Liverpool vann þessa keppni þrjú ár í röð 1901, 1902 og 1903. Stuðningur áhorfenda var góður og meðaltal á heimaleikjum var rúmlega 15.000 áhorfendur. John Houlding var stoltur af liði sínu og taldi það ekki slæman árangur að byggja lið frá grunni sem verður svo meistari aðeins níu ára gamalt. John Houlding lést tæpu ári síðar en sonur hans John Houlding yngri hafði þegar tekið við formennskunni.

Fyrsta stórstjarna Liverpool var Skotinn Alex Raisbeck sem fór fyrir vörn Liverpool af miklum myndugleik og var einnig fyrirliði liðsins. McKenna hafði komið auga á hann er hann lék með Stoke City og ráðlagði Watson framkvæmdastjóra að kaupa þennan kappa og greiddi Liverpool 350 pund fyrir hann árið 1898. Raisbeck var álitinn besti varnarmaður sinnar kynslóðar og íþróttafréttamenn staðarblaðsins Liverpool Echo voru engu síður aðdáendur Skotans snjalla: “Maður sem ber sig af eins miklum glæsileik og Raisbeck myndi vekja athygli hvar sem er. Hann er myndarmaður og er tignarlegur á velli prýddur ljósum hármakka sem slær á rjóðar kinnar hans.” Raisbeck var harður í horn að taka og þrátt fyrir að hann væri einungis 176 sentimetrar þá var hann sterkur í loftinu einnig. Samtíðarmaður hans lýsti honum sem “vélmenni gætt þvílíkri greind og bókstaflega iðar af lífsgleði.” Enn ein lýsingin á kappanum hljóðaði upp á samlíkingu við gríska glæsimennið og herkonunginn Alexander mikla. Liverpool var ákveðið að halda fast í gullmolann sinn og bætti ofan á 4 punda vikulaun hans með því að ráða hann til þess að hafa umsjón með því að auglýsingaspjöld fyrir leiki Liverpool væru sett upp víðsvegar um héraðið samkvæmt tilskildum reglum. Hann reyndist þó aldrei þurfa að sinna þessu starfi þar sem þetta var einungis ein leið sem tíðkaðist á þessum tíma hjá félögunum til að veita leikmönnum sínum aukaskilding en launaþak var á launum leikmanna í EnglandiLiverpool olli vonbrigðum á næsta tímabili en sérstaka athygli vakti afrek Andy McGuigan sem varð fyrsti leikmaður Liverpool til að skora fimm mörk fyrir Liverpool í einum og sama leiknum. Stoke var fórnarlambið og lokastaðan 7-0 en veikindi í herbúðum Stoke hjálpuðu Andy óneitanlega er níu leikmenn voru inná hjá Stoke í leikslok en á tímabili í leiknum voru þeir aðeins sjö! Þeir voru nefnilega með heiftarlega magakveisu og þurftu ótt og títt að skreppa á kamarinn á meðan leik stóð. Liverpool innbyrti annan meistaratitil sinn árið 1906 eftir að hafa skroppið niður í 2. deild í millitíðinni leiktíðina 1904-05. Þeir unnu þar með það einstæða afrek að sigra í 2. deild og halda rakleitt að meistaratitli í 1. deild á tveimur árum. Enn magnaðist stuðningurinn og meðaltal áhorfenda sló fyrri met og fór yfir 17.000. Liverpool vonaðist eftir því að vinna tvennuna; deild og bikar. Liðið komst í undanúrslit F.A. bikarsins og voru mótherjarnir Everton af öllum liðum. Liðin léku á Villa Park fyrir framan 30.000 áhorfendur. Everton vann 2:0 og bar síðan sigur úr býtum í úrslitaleiknum 1:0 gegn Newcastle United. Tveir stærstu bikarar landsins voru komnir til Liverpoolborgar og þetta var ekki í síðasta skipti sem það gerðist. Joe Hewitt var markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með 23 mörk. Joe lék 164 leiki og skoraði 69 mörk á leikferli sínum með Liverpool. Hann var alls 60 ár í þjónustu félagsins sem leikmaður, þjálfari og við önnur störf og var mjög vinsæll hjá félaginu alla tíð.

Alex Raisbeck var enn sem fyrr lykilmaður í liði Liverpool og einnig fyrirliði skoska landsliðsins. Hann leiddi lið sitt til 2-1 sigurs gegn enska landsliðinu á hinum nýja Hampdenleikvangi í Glasgow árið 1906. Markvörður Englendinga, James Ashcroft, hreifst af tilburðum Raisbeck til að stöðva hinn stórhættulega framherja Bolton Albert Shepherd: “Ég hef aldrei séð þvílíka frammistöðu, ég gat ekki tekið augun af honum.” Árið 1906 var einnig merkilegt fyrir þær sakir að þá reis áhorfendastæði sem gerði þar með 60.000 áhorfendum kleift að koma sér fyrir á Anfield. Þetta nýja stæði tók um 20.000 áhorfendur og var skírt The Spion Kop til minningar um þann fjölda heimamanna sem féll í orrustunni á “Spion Kop” hæðinni í Suður-Afríku í Búastríðinu árið 1901. Áhorfendum á The Kop eins og hún var kölluð í daglegu tali gafst þó einungis eitt tímabil til að virða hetju Liverpoolmanna Alex Raisbeck fyrir sér því að loknu tímabilinu 1906-1907 taldi hann orðið tímabært að setjast í helgan stein 29 ára að aldri. Alex lék alls 340 leiki og skoraði 21 mark á árunum 1898 til 1909. Hann reyndi fyrir sér við framkvæmdastjórn hjá nokkrum liðum með þokkalegum árangri en endaði starsfaldur sinn sem njósnari hjá Liverpool.

Meistarar 1905-06. : W. Connell (þjálfari), Hewitt, Wilson, S. Hardy, Parry, Doig, Dunlop, J. Hardy. Sitjandi: Robinson, Gorman, Murray, Hughes, Raisbeck, Cox, Fleming, Raybould, West. Sitjandi á vellinum: Goddard, Latham, Carlin.

Mögur ár voru framundan þó að annað sætið næðist 1910. Árið 1914 birti heldur til og Tom Watson gat hlakkað til úrslitaleiksins í bikarkeppni knattspyrnusambandsins sem Liverpool hafði aldrei unnið. Tom hafði fram að þessu þrívegis upplifað tap með liðinu í undanúrslitum. Liverpool átti ekki góða leiktíð í deildinni og hafnaði aðeins í 16. sæti. Á leiðinni í úrslitin lagði Liverpool: Barnsley, Gillingham, West Ham United og Queens Park Rangers áður en kom að undanúrslitunum. Þar lék Liverpool gegn Aston Villa og var leikið á White Hart Lane. Aðeins 27.000 áhorfendur mættu því Aston Villa var talið næsta öruggt með sigur enda liðið sterkt á þessum árum. En Liverpool kom nokkuð á óvart og vann sigur 2:0. Jimmy Nicholl skoraði bæði mörkin framhjá fyrrum markverði Liverpool hinum frábæra Sam Hardy, sem lék 239 leiki með Liverpool á árunum 1905 til 1912. Burnley var mótherji Liverpool í úrslitunum.

Þann 25. apríl 1914 stóðu menn jafnvel ofan á staurum, sátu uppi í trjám eða voru bara yfirleitt hvar sem útsýni gafst yfir Crystal Palace völlinn í Lundúnum. 72.778 áhorfendur var opinber áhorfendafjöldi en sumir telja að miklu fleiri hafi verið á leiknum. Þetta var nítjándi og síðasti úrslitaleikurinn sem fór fram á þessum fornfræga velli sem rúmaði 122.000 áhorfendur. Aðsókn að leiknum þótti ekki mikil því liðin höfðu ekki mikið aðdráttarafl nema fyrir stuðningsmenn sína. Talið er að 20.000 stuðningsmenn Liverpool hafi flykkst til höfuðborgarinnar til að sjá leikinn. Hans hátign George hinn fimmti var viðstaddur þennan merkisatburð og var fyrsti þjóðhöfðingi Englands sem gerði svo. Hann lagði þar með grunninn að þeirri hefð að meðlimur konungfjölskyldunnar heiðri liðin í úrslitum F.A. bikarsins með nærveru sinni. Úrslitaleikurinn var tekinn mjög alvarlega ekki síður en nú á dögum. Leikmenn og forráðamenn Liverpool höfðu yfirgefið heimaborg sína á mánudeginum fyrir leik og haldið til æfinga og undirbúnings fjarri borginni. Fyrirliði Liverpool Henry Lowe gat ekki leikið vegna meiðsla og var Robert Ferguson fyrirliði í hans stað. Lið Liverpool var þannig skipað í þessum fyrsta bikarúrslitaleik félagsins: Kenny Campbell, Ephraim Longworth, Bob Pursell, Tom Fairfoul, Robert Ferguson, Don McKinlay, John Sheldon, Arthur Metcalf, Tom Miller, Bill Lacey og Jimmy Nicholl. Leikurinn sjálfur þótti bragðdaufur og greindi eitt dagblaðanna frá því að besta augnablikið hafi átt sér stað í hálfleik þegar skrúðganga hersins vakti athygli áhorfenda. Á 58. mínútu leiksins skoraði fyrrum framherji Everton, Bert Freeman, eina mark leiksins fyrir Burnley. Skotið var óverjandi fyrir Kenny Campbell í markinu. Liverpool sótti af krafti undir lokin, vel studdir af aðdáendum sínum, en tókst ekki að jafna. Segja heimildir að Liverpool hafi verið óheppið að tapa leiknum en mörkin telja. Stuðningsmenn Liverpool voru tryggir fyrr sem nú og studdu liðið dyggilega í leiknum. Eins tóku stuðningsmenn félagsins höfðinglega á móti liðinu í þúsundatali þegar það kom aftur til Liverpool. En þeir sem sáu um fjármál félagsins gátu glaðst því 14.000 sterlingspund komu í kassann eftir góða framgöngu liðsins í bikarkeppninni. Leikmenn Liverpool reyndu að gleyma þessu sára tapi en félaginu auðnaðist ekki að komast í úrslit bikarsins fyrr en 36 árum síðar og það leið rúm hálf öld áður en félagið vann loks bikarinnFjórum mánuðum eftir bikarleikinn skall fyrri heimsstyrjöldin á og eftir að tímabilinu 1914-15 lauk lá deildarkeppnin niðri á meðan styrjöld geysaði. Framkvæmdastjóri Liverpool til 19 ára Tom Watson andaðist í maí 1915, skömmu áður en deildin lagðist í dvala. Hann var enn í starfi sem stjóri Liverpool þegar hann lést og var öllum hjá félaginu mikill harmdauði. Alex Raisbeck og fleiri fyrrverandi og þáverandi leikmenn Liverpool báru kistu hans við útförina. Tom hafði skilað félaginu tveimur meistaratitlum í 1. deild og einum í 2. deild. Að auki hafði Tom gert Sunderland þrisvar að enskum meisturum þannig að hann átti fimm meistaratitla að baki. Það má því ljóst vera að Tom var magnaður stjóri. Þegar deildarkeppnin hófst að nýju leiktíðina 1919-20 var Liverpool enn án framkvæmdastjóra. George Patterson hafði þó séð um málefni liðsins frá því Tom féll frá. Liverpool lenti í 4. sæti. Í desember 1920 tók David Ashworth við liðinu. Liðið hafnaði aftur í 4. sæti og endaði átta stigum eftir meisturum Burnley. Næsta tímabil var liðið hins vegar sigursælt. Dick Forshaw og þá sérstaklega Harry “Smiler” Chambers, sem svo var kallaður vegna þess að hann var ætíð skælbrosandi, höfðu næga ástæðu til að brosa gleitt því að þeir röðuðu inn mörkunum. En liðið byggðist helst á sterkri vörn með Elisha Scott í markinu og bakverðina Longworth og McKinlay.

Elisha gekk til liðs við Liverpool árið 1912. Bróðir Elisha, Billy að nafni, lék með Everton og það var hann sem benti forráðamönnum Liverpool á hann. Þeir bræður Billy og Elisha komu frá Belfast og voru báðir landsliðsmenn. Elisha var aðeins tæplega 176 sentimetrar á hæð en var fimur og afbragðs markvörður. Elisha lék sinn fyrsta leik með Liverpool á nýársdag 1913 og hélt hreinu í markalausu jafntefli á útivelli gegn Newcastle. Strax eftir leik spurðust forráðamenn Newcastle fyrir um það hvort ekki væri hægt að fá strákinn því þeir vissu að það var landsliðsmaður fyrir í markinu hjá Liverpool. En Watson stjóri Liverpool tók það ekki í mál enda vissi hann að Írinn var magnað efni. Þetta var eini leikur hans þá leiktíð enda Kenny Campbell magnaður í markinu. En sá írski tók við Kenny eftir heimsstyrjöldina. Bakvarðarparið Ephraim Longworth, sem varð fyrsti leikmaður Liverpool til að bera fyrirliðaband enska landsliðsins og Skotinn Don McKinlay, komu til Liverpool árið 1910 með fimm mánaða millibili og léku samtals rúmlega 800 leiki hjá Liverpool. Don var fljótur, leikinn og var aukaspyrnusérfræðingur liðsins. Hann hafði leikið í öllum hugsanlegum stöðum í liðinu en skapaði sér aðallega nafn sem vinstri bakvörður. Hann skoraði alls 34 mörk í 433 leikjum sem var ekki slæmur árangur fyrir varnarmann og eftirminnilegasta mark hans kom vafalaust úr þrumuskoti sem hann lét ríða af 10 metrum innan síns eigin vallarhelmings gegn West Ham í janúar 1926. Longworth lék alls 370 leiki en skotskórnir voru ekki reimaðir vel á hann þannig að minnti á skothæfni Rob Jones nokkrum áratugum síðar. Hann afrekaði það rétt eins og Jones að skora ekki eitt einasta mark fyrir félagið. Don og Ephraim voru 18 ár á Anfield og höfðu báðir leitt liðið sem fyrirliðar.

Liverpool byrjaði tímabilið 1921-22 illa með 3-0 tapi gegn Sunderland en tapaði svo einungis einum leik fram í miðjan mars en þá virtist titillinn ætla að ganga úr greipum þeirra. Eins og á meistaraárinu 1901 þurfti Liverpool að leika lokaleikinn gegn WBA á útivelli og vinna til að innbyrða meistaratignina. Liverpool byrjaði af miklum krafti og hafði 4:1 forystu í hálfleik. Þannig lauk leiknum og titillinn var í höfn. Stuðningurinn við Liverpool var sem fyrr magnaður og meðaltal á Anfield var rúmlega 37.000 á deildarleikjum liðsins. Þann 10. maí vorið 1922 lék Liverpool sem enskir meistarar í fyrsta skipti en ekki það síðasta um Góðgerðaskjöldinn. Leikið var gegn Huddersfield Town á Old Trafford fyrir framan 20.000 áhorfendur en leikurinn tapaðist 1:0.

Á næstu leiktíð hélt Liverpool uppteknum hætti. Sérstaklega skemmtu aðdáendur liðsins sér í október. Metáhorfendafjöldi á Anfield Road 54.368 sá Liverpool leika gegn Everton. Þeir Bláu voru 1:0 yfir í hálfleik. En í þeim seinni skoraði Chambers þrennu og þeir McNab og Bromilow gulltryggðu stórsigur. Viku síðar komu 52.000 áhorfendur á Goodison Park og þeir sáu Dick Johnson tryggja þeim Rauðu sigur með eina marki leiksins. En þá gerðist nokkuð sem varla á sér hliðstæðu í knattspyrnusögunni. Í febrúar 1923 þegar Liverpool stefndi hraðbyri að titli annað árið í röð tók David Ashworth framkvæmdastjóri þá undarlegu ákvörðun að snúa aftur til gamla félags síns Oldham sem var á botni deildarinnar. Það kunni enginn viðhlítandi skýringu á þessu athæfi og enn í dag er þetta öllum hulin ráðgáta. George Patterson ritari Liverpool tók tímabundið við af Ashworth en sýnt var að ráða þyrfti nýjan framkvæmdastjóra sem fyrst til þess að stýra liðinu til meistaratitils. Matt McQueen hafði fengist við nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna hjá Liverpool og var einn af Skotunum sem léku með Liverpool í upphafi sögu félagsins. Hugh bróðir hans kom með honum frá Skotlandi 1892 og lék líka um tíma hjá Liverpool. Matt hafði á sínum tíma leikið allar stöður í liðinu. Já, það er ótrúlegt en satt en hann lék líka alls 49 leiki í stöðu markvarðar! Í metaannálum er hann talinn eini leikmaðurinn í heiminum sem hefur leikið allar stöður á vellinum með liði í atvinnumannadeildum. Hann var formaður Liverpool árin 1917 og 1918 og hafði einnig verið ritari félagsins og ekki ólíklegt að hann hefði einnig þvegið skyrturnar og slegið grasið. Matt hafði líka verið fyrirliði liðsins um hríð en nú var stóra stundin runnin upp. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Hann náði fyrsta takmarki sínu á vordögum 1923 er Liverpool lyfti meistaratitlinum. Liverpool vann einungis einn af síðustu sjö leikjum sínum en vann samt deildarkeppnina með sex stiga forskoti. Ashworth sem yfirgefið hafði Liverpool þurfti á meðan að horfa upp á fall Oldham undir stjórn hans. Liverpool hlaut 60 stig í deildinni sem var metjöfnun og Elisha setti met þegar hann fékk aðeins á sig 23 mörk. Á þessum tveimur meistaraleiktíðum þurfti hann aðeins 63 sinnum að sækja boltann í markið og sem dæmi má nefna að hann hélt marki sínu hreinu í átta leikjum frá 30. desember 1922 til 3. mars 1923. Blaðamenn þurftu sannarlega að magna upp lýsingarorðin til að geta gert meistaranum skil. Einn lýsti honum svo: “Elisha hefur arnaraugu, hann er snöggur sem pardusdýr þegar hann skutlar sér á eftir boltanum og boltinn er sem í skrúfstykki þegar hann hefur komið höndum á hann!” Svo mörg voru þau orð. Mikill stöðugleiki einkenndi liðið á þessum tveimur leiktíðum og leik eftir leik skipuðu sömu leikmennirnir liðið. Harry Chambers var markahæstur leikmanna Liverpool í deildinni báðar leiktíðirnar. Leiktíðina 1921-22 skoraði hann 15 mörk og 1922-23 skoraði hann 22 mörk. Alls lék hann 310 leiki og skoraði 135 mörk og varð fimm sinnum markakóngur liðsins í deildinni. Félagi Harry í sókninni, Dick Forshaw var líka fengsæll og skoraði 17 mörk fyrri meistaraleiktíðina og 19 þá seinni. Hann lék allt í allt 287 leiki og skoraði 124 mörk. Meðal annara lykilmanna voru enski landsliðsbakvörðurinn Tommy Lucas og Ted Parry sem var landsliðsbakvörður Walesverja. Með þá tvo, Longworth og McKinlay átti Liverpool um tíma fjóra landsliðsmenn í vörninni. Liverpoolbúinn Tommy Bromilow var líka enskur landsliðsmaður. Á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir gerði hann sér ferð til Anfield. Hann var í einkennisbúningi hersins og því allvígalegur þegar hann bankaði upp á hjá George Patterson og spurði hvort Liverpool vantaði ekki leikmann. Patterson þorði ekki annað en að játa því!


Liverpool hafði varið enska meistaratitilinn og unnið hann í fjórða skipti. Liverpool var því komið í hóp sigursælustu liða Englands. Aðeins Aston Villa með sex meistaratitla og Sunderland með fimm höfðu unnið enska meistaratitilinn oftar en Liverpool þegar hér var komið við sögu. Everton átti til dæmis aðeins tvo meistaratitla! Liðið var sannarlega vel skipað og með þetta magnaða lið áttu stuðningsmenn Liverpool allt eins von á fleiri titlum á næstu sparktíðum.Eftir tvo Englandsmeistaratitla í röð árin 1922 og 1923 var búist við að Liverpool héldi áfram að láta til sín taka í titlasöfnun á næstu leiktíðum. Það varð þó ekki og heil tuttugu og fjögur ár og ein heimsstyrjöld liðu áður en næsti stórtitill rataði til Anfield Road. Svo þótti okkur núlifandi stuðningsmönnum liðsins sex ár löng bið þegar titlar síðustu leiktíðar fóru að tínast inn. Hvað máttu stuðningmenn Liverpool segja á þeim árum sem fóru í hönd eftir 1923? Það var ekki einu sinni svo að liðið næði að blanda sér í baráttuna um enska meistaratitilinn svo nokkru næmi og gengi liðsins í F.A. bikarnum var ekki gott. En á þessum árum bar samt margt skemmtilegt til tíðinda og margir framúrskarandi leikmenn léku listir sínar á Anfield Road.

Fyrsta heila tímabil Matt McQueen með liðið, 1923/24, olli vonbrigðum og liðið endaði í tólfta sæti. Leikmönnum liðsins tókst aðeins að skora 49 mörk og í fimmtán leikjum tókst ekki að skora. Huddersfield Town tók við af Liverpool sem Englandsmeistarar og hélt titlinum næstu þrjú árin. Sumir töldu að forráðamenn Liverpool hefðu ekki gætt nógu vel að því að styrkja liðið á meðan vel gekk á meistaraárunum 1922 og 1923. Liðið var að kalla óbreytt þessar tvær leiktíðir. Aldurinn færðist yfir leikmennina og önnur lið náðu Liverpool að styrk. Markakóngur Liverpool 1925 og 1926, Dick Forshaw, yfirgaf Liverpool óvænt og fór yfir Stanley Park til Everton. Burðarásarnir í vörn Liverpool; Ephraim Longworth og Don McKinlay hættu í lok þriðja áratugarins. Longworth var þá fertugur að aldri og hafði þá verið á Anfield í 18 ár frá árinu 1910. Hann er næstelsti leikmaður í sögunni til að leika fyrir Liverpool. Sá elsti var markvörðurinn Ted Doig sem var 41 árs og 165 daga gamall þegar hann lék sinn síðasta leik með Liverpool í apríl 1908.

Leiktíðina 1926/27 hafnaði Liverpool í níunda sæti en á þeirri næstu skall hurð nærri hælum og liðið endaði í sextánda sæti einu stigi fyrir ofan fall. Það sem verra var Everton varð meistari. Nýtt áhorfendamet var sett á Anfield Road þann 25. febrúar þegar 56.447 tróðu sér inn í Musterið til að sjá Liverpool leika gegn Everton. Jafntefli varð 3:3. Í sókninni hjá þeim Bláu var nú William Dean, oftast nefndur Dixie Dean, og skoraði hann 60 deildarmörk á leiktíðinni í 39 leikjum. Það er meira en næsta víst að þetta met verður aldrei slegið. Forráðamenn Liverpool voru ekki kátir enda var Dean úr borginni og Everton hafði nælt sér í þennan snilling frá Tranmere Rovers. Njósnarar Liverpool hafa eflaust klórað sér í höfðinu og velt fyrir sér hvernig Dixie slapp í gegnum net þeirra.

Matt McQueen lét af stöfum í febrúar þessa leiktíð vegna heilsuleysis sem mátti rekja til þess að hann missti annan fótinn í bílslysi. Matt hélt þó áfram að vera viðriðinn félagið til dauðadags í september 1944. George Patterson, ritari Liverpool, sem hafði tekið við liðinu til bráðabirgða eftir að Ashworth yfirgaf félagið, var boðin framkvæmdastjórastaðan og nú til langframa. George kom fyrst til Liverpool sem aðstoðarmaður Tom heitins Watson árið 1908. Áður en Matt hætti hafði hann fengið til liðs við Liverpool þann mann sem átti eftir að verða mestur markaskorari fram að þeim tíma hjá félaginu. Þessi magnaði leikmaður hét Gordon Hodgson og hann kom úr óvæntri átt.

Gordon Hogdson fæddist í Jóhannesarborg í Suður Afríku 16. apríl 1904. Árið 1925 var hann á Englandi í keppnisferð með knattspyrnuliði frá heimalandi sínu. Nokkrir úr liði hans vöktu athygli og hann og tveir félagar hans markvörðurinn Arthur Riley og James Gray gengu til liðs við Liverpool. Reyndar gengu átta leikmenn frá Suður Afríku til liðs við Liverpool á árunum 1925 til 1936. Liverpool hafði góð sambönd við þarlenda og flestir þessir leikmenn reyndust mun betri en landi þeirra Sean Dundee sem er síðasti leikmaðurinn frá þessu ágæta landi til að koma við sögu hjá Liverpool. Hodgson hóf að leika með Liverpool keppnistímabilið 1925/26 og hann lék með félaginu þangað til í janúar 1936. Gordon var stór, sterkur og mjög fljótur sóknarmaður. Á þessum tíu sparktíðum með Liverpool varð hann sjö sinnum markakóngur liðsins í deildinni. Á árunum 1928 til 1935 var það aðeins Jimmy Smith sem rauf einokun hans árið 1930 með því að skora flest mörk fyrir félagið á þeirri leiktíð. Besta tímabil hans var 1930/31 en þá skoraði hann 36 deildarmörk í 40 leikjum sem var félagsmet. Roger Hunt sló metið leiktíðina 1961/62 þegar hann skoraði 41 mark en það var í 2. deild. Metið sem Gordon setti stendur enn sem flest deildarmörk á einni leiktíð í efstu deild. Í heild lék Gordon 378 leiki og skoraði 240 mörk. Af þeim mörkum skoraði hann 232 mörk í deildinni sem var félagsmet þangað til Roger Hunt sló það rúmum þrjátíu árum síðar. Liverpool var ekki með mjög sterkt lið á þessum árum og afrek Gordons því mjög mikið. Í sterkara liði hefði Gordon eflaust skorað mun fleiri mörk. Hann lék aðeins þrjá landsleiki fyrir England og skoraði eitt mark. Enn þann dag í dag er Gordon þriðji markahæsti leikmaður Liverpool í sögu félagsins ef allar keppnir eru taldar. Aðeins Ian Rush og Roger Hunt hafa skorað fleiri mörk en hann.

Vorið 1928 var hafist handa við tímamótaverk. Reyndar mætti segja að tólfti leikmaðurinn í liði Liverpool hafi verið skapaður. Þessi liðsmaður hefur dugað betur en flestir og má segja að hann lifi enn. Þak var reist yfir The Kop og steypt voru stæði fyrir áhorfendur. The Kop hafði hlotið nafn sitt árið 1901 þegar stæðin þar voru mótuð. En þessi framkvæmd reyndist mikið happaverk. Vegna hönnunar þaksins yfir áhorfendastæðunum varð hljómburðurinn gríðarlega magnaður og andrúmsloftið á Anfield varð fyrir vikið mun ógnvænlegra fyrir andstæðingana en nokkru sinni fyrr. Kopáhorfendastæðin og þakið yfir þeim voru svo að segja óbreytt til vorsins 1994 þegar þau viku fyrir stúku sem tekur 12.409 áhorfendur í sæti. Alls tóku þessi risastæði ein og sér allt að 28.000 áhorfendur. Í heild er talið að Anfield Road hafi á þessum tíma rúmað 70.000 áhorfendur. Að auki var siglutré eins fyrsta stálskipsins, Great Eastern, dregið af hestum frá höfninni og að Anfield Road þar sem þar var reist við The Kop og notað sem fánastöng. Þann 25. ágúst voru nýju áhorfendastæðin vígð þegar Bury kom í heimsókn. Fólki hafði verið ráðlagt að koma snemma á völlinn því búist var við miklu fjölmenni. Alls mættu 40.000 áhorfendur og voru þeir í hátíðarskapi. Höfðinginn John McKenna, fyrsti framkvæmdastjóri Liverpool, vígði hið glæsilega mannvirki. Klukkan tíu mínútur í þrjú gekk John ásamt fylgdarliði út á völlinn og breiddi út fána fyrir framan The Kop til merkis um að mannvirkið væri tekið í notkun. Liverpool byrjaði vel fyrir framan Kopstæðin. Billy Miller skoraði eftir fimmtíu sekúndur. Hann skoraði aftur seinna í leiknum og Albert Whitehurst bætti við marki og 3:0 sigur var í höfn. Eftir leikinn var haldið hóf hjá stjórnarmönnum Liverpool og gestum þeirra. Í hófinu kvað John McKenna sér hljóðs og hélt ræðu þar sem hann hvatti forráðamenn Liverpool til að koma félaginu í fremstu röð á nýjan leik. Margt af því sem John sagði gæti hafa verið sagt við svipað tækifæri nú á dögum. Hann sagði meðal annars: “Við getum ekki lifað í fortíðinni. En ég held að fortíðin eigi á komandi árum að að vera okkur hvatning til framfara.” John hvatti að lokum stjórn Liverpool til þess að byggja upp sterkt lið sem hæfði hinu nýja og glæsilega mannvirki. Liverpool endaði leiktíðina 1928/29 í 5. sæti þrátt fyrir að leikmenn liðsins sendu boltann 90 sinnum í mark andstæðinga sinna.Heimskreppan gekk í garð um 1930 og það mátti segja að nokkurs konar kreppa ríkti á Anfield Road á þeim áratug sem var að hefjast. Arsenal var lið áratugarins og vann titilinn 1931 og þrjú ár í röð 1933, 1934, 1935 og svo enn einu sinni 1938. Að auki unnu Skytturnar F.A. bikarinn 1930 og 1936. Everton lét líka til sín taka með Dixie Dean í broddi fylkingar. Reyndar varð liðið í neðsta sæti deildarinnar og féll vorið 1930 en fór strax upp aftur og varð enskur meistari 1932 og bikarmeistari vorið eftir. Everton varð svo aftur enskur meistari 1939. En það gekk upp og niður hjá hinum rauðklæddu nágrönnum þeirra.

Forráðamenn Liverpool drógu upp seðlaveskið í janúar 1930 og keyptu skoska miðvörðinn Tom “Tiny” Bradshaw frá Bury fyrir átta þúsund sterlingspund. Þetta var á þeim tíma fjórða hæsta verð sem greitt hafði verið fyrir leikmann. Tom var jafnan kallaður “Naggur” en hann var allt annað en smávaxinn. Tom var stór og gríðarlega sterkur varnarmaður. Hann lék í hinum fræga landsleik er Skotar sigruðu Englendinga 5-1 á Wembley og var því einn af “Wembley-undradrengjunum” (Wembley Wizards) eins og þeir Skotar voru kallaðir sem tóku þátt í þessum frábæra leik. Skotar áttu marga góða leikmenn sem léku sömu stöðu og Bradshaw á þessum tíma og því reyndist þessi sögulegi leikur eini landsleikur hans á ferlinum. Bradshaw þjónaði félaginu dyggilega í 9 ár, lék alls 291 leik, og er minnst sem eins besta miðvarðar í sögu Liverpool.

Versta tap Liverpool á Anfield Road í sögunni átti sér stað í apríl 1930 þegar Sunderland vann 6:0. Liverpool hafnaði í tólfta sæti þetta vor. Skrautlegast var þó kannski tímabilið 1930/31 þegar liðið vann stórsigra og tapaði illa inn á milli. Frammistaða liðsins var alltof sveiflukennd ólíkt formi Gordon Hodgson sem skoraði, eins og fyrr sagði, hvorki fleiri né færri en 36 mörk. Hann skoraði alls fjórar þrennur og eina fernu á leiktíðinni. Gordon sló þar með markamet Sam Raybould frá 1903, sem skoraði þá 31 mark í deildinni. Liverpool endaði þrátt fyrir öll mörkin einungis í níunda sæti. Á næstu sparktíð hafnaði Liverpool í tíunda sæti. Eftirminnilegasti leikur leiktíðarinnar var líklega gegn Everton í 3. umferð F.A. bikarsins. Mikill áhugi var á leiknum og 57.000 áhorfendur mættu á Goodison Park. Everton stefndi í sigur í deildinni og Dixie Dean kom þeim Bláu yfir á fyrstu mínútu leiksins. Liverpool jafnaði fimm mínútum fyrir hálfleik og það var svo markakóngurinn Gordon Hodgson sem tryggði þeim Rauðu sigur fjórum mínútum fyrir leikslok. Í kjölfarið á þessum sigri átti Liverpool sína bestu rispu í bikarkeppninni á þessum áratug en féll út í átta liða úrslitum þegar Chelsea vann 2:0 á Anfield Road. Leiktíðin endaði með skelfingu. Á lokadegi hennar varð mettap staðreynd þegar Bolton vann Liverpool 8:1 á heimavelli sínum. Leiktíðina 1932/33 var tíunda sætið hlutskipti Liverpool og enn var það leikur gegn Everton sem stóð upp úr. Everton voru þá ríkjandi meistarar og komu í heimsókn á Anfield Road þann 11. febrúar. Sem fyrr var vel mætt á nágrannaslagina og 50.000 áhorfendur keyptu sig inn á Anfield. Meistararnir fengu að finna fyrir því og Liverpool vann 7:4 sigur í ótrúlegum leik. Harold Barton skoraði þrennu og aldrei hafa fleiri mörk verið skoruð í einum leik milli þessara fornu keppinauta.

Goðsögnin Elisha Scott, þá 39 ára að aldri, kvaddi vorið 1934 eftir 22 ára þjónustu og 467 leiki sem var leikjamet hjá Liverpool þangað til Billy Liddell sló það í nóvember 1957. Þetta er ótrúlegur leikjafjöldi því á þessum árum var aðeins keppt í deildarkeppninni og F.A. bikarnum. Deildarbikarinn og Evrópumótin komu löngu síðar til sögunnar. Elisha hélt hreinu í hélt hreinu í 126 leikjum af 467. Hann kom til Liverpool árið 1912 og lék alls átján leiktíðir með liðinu. Hann eins og fleiri missti úr fimm leiktíðir á meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Landsleikjaferill Elisha stóð frá 1920 til 1936 og hann var 42 ára þegar hann lék sinn síðasta landsleik. Hann var ekki mjög hávaxinn af markverði en hæðin kom ekki í veg fyrir að hann væri stórkostlegur markvörður. Dómgreind hans var góð og hann lét samherja sína heyra það ef hann taldi þörf á. Einum varnarmanna hans var alls ekki vel við við munnsöfnuð hans. James Jackson skammaði Scott ef svo bar undir í miðjum leik fyrir að blóta svona mikið. James stundaði nám, með knattspyrnuiðkun sinni, í guðfræði og vígðist síðar til prests hjá réttrúnaðarkirkjunni. Guð má vita hvað honum barst til eyrna þegar Scott mætti markamaskínunni Dixie Dean í Everton en hann og Scott voru svarnir óvinir á velli. Dixie fór jafnan mikinn gegn Liverpool og skoraði nítján mörk gegn þeim Rauðu í aðeins sautján leikjum. Elisha og Dixie voru báðir goðsagnir í lifandi lífi á Merseybökkum á þessum árum. Utan vallar kom þeim prýðilega saman og Dean mat mótherja sinn mikils: “Ég hef leikið gegn mörgum sterkum markvörðum í gegnum tíðina en Elisha var sá besti.”

Aðdáun stuðningsmanna Liverpool var engu lík og á afmælisdegi Liverpool, 15. mars 1924 bar einstæðan atburð fyrir á Anfield Road. Blackburn Rovers var þá í heimsókn og endaði leikurinn markalaus. Í leiknum átti leikmaður gestanna bylmingslangskot að marki Liverpool sem Elisha varði meistaralega í horn. Einn stuðningsmaður Liverpool stökk þá inn á völlinn, hljóp að markverðinum frábæra og smellti kossi á kinnina á honum sem þakklæti fyrir tilþrifin. Andrúmsloftið á Anfield var þrungið spennu þann 2. maí 1936 er Scott kvaddi. Liverpool lagði Manchester City að velli 3:2. Elisha lék ekki þennan kveðjuleik sinn, eins og allir höfðu vonast eftir. Hann hafði þó leikið tíu leiki á leiktíðinni en á leiknum var hann sérstakur gestur stjórnar Liverpool og sat í heiðursstúkunni. En hann ávarpaði hina dyggu stuðningsmenn sína í leikslok og sögðu sjónarvottar síðar að fullorðnir karlmenn hefðu fellt ófá tár. Sama ár hafði boðið Everton 250 sterlingspund í kappann. Þetta tilboð spurðist út og lesendabréfum frá æstum aðdáendum Liverpool rigndi til staðarblaðanna í borginni. Vegna viðbragða stuðningsmanna Liverpool varð ekkert af kaupunum. Elisha hélt á heimaslóðir og tók við hjá Belfast Celtic sem spilandi framkvæmdastjóri. Arthur Riley sem kom frá Suður Afríku með Gordon Hodgson á sínum tíma tók nú alfarið við markvarðarstöðunni. Hann þótti góður markvörður og lék alls 338 leiki með félaginu fram að stríðinu er hann var orðinn 35 ára.

Nýtt áhorfendamet var sett á Anfield Road á leiktíðinni. Nágrannaliðin Liverpool og Tranmere Rovers drógust saman í 4. umferð F.A. bikarins. Þá höfðu liðin aldrei leikið áður saman í opinberri keppni. Tranmere drógst á heimavelli en samkomulag varð um að spila á Anfield Road. Hvorki fleiri né færri en 61.036 áhorfendur tróðu sér inn á Anfield þann 27. janúar 1934 og borguðu 4.007 sterlingspund í aðgangseyri. Enn er þetta næstmesti áhorfendafjöldi á Anfield Road. Norður-Írinn með enska nafnið Sam English kom Liverpool yfir á 17. mínútu en sex mínútum síðar jafnaði Everton. Hægri kantmaðurinn Berry Nieuwenhuys kom Liverpool yfir á 33. mínútu og Sam gulltryggði sigurinn fimm mínútum fyrir leikslok. Eitt eftirminnilegasta atvikið í leiknum var þegar, vinstri kantmaðurinn og pípulagningamaðurinn, Alf Hanson lenti í hörðu samstuði við einn leikmanna Rovers og skutlaðist út á meðal áhorfenda á The Kop. Það þurfti hálfpartinn að grafa hann upp úr mannhafinu. Þeir Berry og Alf voru, á þessum árum, mjög góðir á sitt hvorum kantinum og lögðu upp mörg mörk fyrir Gordon Hodgson. Sam English, sem skoraði tvö mörk í þessum leik, var frábær leikmaður sem var keyptur frá Glasgow Rangers fyrir tímabilið. Hann hafði slegið félagsmet Rangers leiktíðina áður er hann skoraði 44 mörk en sorglegt atvik í leik Glasgow-risanna hvíldi sem skuggi yfir ferli hans. Samstuð English við markvörð Celtic og skoska landsliðsins, John Thomson, varð þess valdandi að Thomson lést af völdum höfuðáverkanna. Skoskir knattspyrnuáhangendur kenndu English um þetta hræðilega slys og hann sá sér ekki aðra leið færa en að flýja suður yfir landamærin. English skoraði 21 mark í 31 leik fyrsta tímabil sitt fyrir Liverpool en aðeins 6 mörk í 19 leikjum það næsta sem reyndist lokatímabil hans hjá Liverpool. English þurfti að flýja á ný vegna þess að honum var ekki unnt að einbeita sér að knattspyrnunni vegna áhangenda sem ofsóttu hann enn útaf atvikinu í Skotlandi.

Versti dagur þessarar slæmu leiktíðar var Nýársdagur 1934. Liverpool tapaði þá 9:2, sem var jöfnun á mettapi, fyrir Newcastle á útivelli. Það ótrúlegasta við þennan leik var það að staðan var 2:2 í hálfleik. Ef til vill hefur nýársgleðin farið að segja til sín í síðari hálfleik. Liverpool endaði í átjánda sæti og sýnt var að ef breytingar yrðu ekki á gengi liðsins þá myndi fall í aðra deild ekki vera langt undan. Reynt var að bregðast við á árinu 1934 með því að styrkja vörn liðsins með kaupum á báðum bakvörðum enska landsliðsins. Í mars var vinstri bakvörðurinn Ernie Blenkinsop keyptur frá Sheffield Wednesday og í desember kom hægri bakvörðurinn Tom Cooper frá Derby. Tom hafði verið fyrirliði Derby og enska landsliðsins og gegndi þeirri stöðu um tíma hjá Liverpool en hvorugur lék landsleiki eftir að þeir komu til Liverpool. Nýr kafli í sjálfstæði Liverpool var líka skrifaður í orðsins fyllstu merkingu þetta ár. Félagið hóf þá að gefa út sína eigin leikskrá sem lengst af bar nafnið Anfield Review. Áður hafði félagið gefið úr sameiginlega leikskrá með Everton. Liverpool tók sig á og lauk næstu leiktíð í sjöunda sæti. Gordon skoraði 27 mörk og félagi hans í sókninni, Vic Wright, skilaði 19 mörkum. En næsta tímabil á eftir, 1935/36, var falldraugurinn yfirvofandi og liðið rétt slapp við fall í nítjánda sæti. Þó setti Liverpool met á leiktíðinni. Enn kom Everton við sögu. Þann 7. september komu þeir bláklæddu í heimsókn á Anfield Road. Liverpool náði sannkölluðum stórleik og hafði 4:0 yfir í hálfleik. Á síðustu fjórum mínútum leiksins bætti Fred Howe við tveimur mörkum og stórsigur 6:0 var staðreynd. Howe skoraði alls fjórum sinnum og meistarinn Gordon Hodgson skoraði hin tvö mörkin. Stuðningsmenn Liverpool fóru kátir heim þennan daginn. Sætur sigur og sá stærsti sem Liverpool hefur unnið á Everton í sögunni.

Skoski bakvörðurinn Matt Busby lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool á útmánuðum. Hann kom frá Manchester City fyrir átta þúsund sterlingspund í febrúar 1936. Hann varð síðar fyrirliði liðsins en seinni heimsstyrjöldin setti strik í feril hans á Anfield eins og margra annara. Hann lék 125 leiki með Liverpool og skoraði þrjú mörk í þeim. Með þrjá skoska landsliðsmenn saman í liðinu, þá Matt, Tom Bradshaw og Jimmy McDougall, hefur skoski framburðurinn verið áberandi á Anfield Road. Matt kunni mjög vel við sig hjá Liverpool og í borginni. Hann sagði síðar að hjá Liverpool hefði hann lært að meta gleðina af að leika knattspyrnu upp á nýtt. Matt var mikils metinn hjá félaginu og honum stóð til boða þjálfarastaða á Anfield að loknu stríðinu. Matt hugsaði sig vel og vandlega um en ákvað að lokum að taka frekar boði Manchester United um framkvæmdastjórastöðu. Þar á bæ var ástandið ekki gott en Matt vildi reyna sig við að rífa félagið upp. Það er um að gera að minna aðdáendur Manchester United á að það var fyrrverandi leikmaður Liverpool sem byggði upp stórveldi þeirra. Það má velta því fyrir sér hvort saga Liverpool og Manchester United væri sú sama og raun varð á ef Matt hefði tekið boði Liverpool um þjálfun hjá félaginu. Alla tíð hefur Sir Matt Busby verið minnst með mikilli virðingu í Liverpool. Því til sönnunar má geta að árið 1966 stóð stuðningsmannablað Liverpool sem hét The Kop fyrir vali á besta liði Liverpool frá upphafi. Það var einnig spurt um besta fyrirliða Liverpool. Sá sem fékk flest atkvæði í þeirri kosningu var Matt Busby.

Hinn 18 ára Phil Taylor lék einnig sinn fyrsta leik en hann átti eftir að koma mikið við sögu á Anfield Road eftir stríð. Hann byrjaði reyndar á því að skora jöfnunarmark Liverpool í 2:2 jafntefli gegn Derby í sínum fyrsta leik í mars 1936. Eins fékk framherjinn Jack Balmer eldskírn sína á þessu slaka tímabili í sögu félagsins og skoraði átta mörk.

Höfðinginn aldni John McKenna lést í mars 1936. Hann var 81 árs að aldri. Við jarðarför hans, líkt og útför John Houlding vinar hans og stofnanda Liverpool, báru leikmenn Liverpool og Everton kistuna. John, sem hafði viðurnefnið Hinn heiðarlegi, hafði starfað í fjörutíu ár hjá Liverpool þar af var hann þrjátíu ár í stjórn félagsins. Hann hafði að auki verið árum saman í stjórn enska knattspyrnusambandsins. Fáum mönnum hefur Liverpool átt meira að þakka. Þá um vorið settist George Patterson í helgan stein af heilsufarsástæðum en hélt reyndar áfram að vera ritari félagsins. Nafni hans George Kay stjóri Southampton tók við. George var yfirvegaður, hugsandi og flanaði ekki að neinu. Hann tók við erfiðu búi. Liðið hafði rétt sloppið við fall, og að auki var markahæsti maður Liverpool síðustu sex tímabil, Gordon Hodgson, farinn á braut. Fyrsta leiktíð George við stjórn 1936/37 var litlu betri og liðið færðist aðeins upp um eitt sæti. Í F.A. bikarnum féll liðið úr fyrir annarar deildar liði Norwich 3:0 og ljóst mátti vera að mikið verk var óunnið við að koma Liverpool í fremstu röð. Ekki bætti úr að meðaltal áhorfenda á Anfield Road var aðeins rúmlega 24.000 og hafði ekki verið lægra frá því fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Reyndar var erfitt gengi Liverpool ekki eina skýringin á lítilli aðsókn. Margt fólk í Liverpool hafði, á þessum áratug, litla peninga handa á milli vegna kreppunnar. Fred Howe var pípulagningamaður eins og Alf Hanson, hafði tekið við merki Gordon Hodgson og var markahæstur bæði árin 1937 og 1938. Það hefur líklega ekki þurft að kaupa vinnu pípulagningamanna á Anfield Road þegar þeir Fred og Alf voru hjá félaginu. Næstu tvær leiktíðir þokaðist heldur í rétta átt og liðið endaði um miðja deild.

Blikur voru á lofti í heimsmálum og margir töldu styrjöld í uppsiglingu. Haustið 1938 fór Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta til Þýskalands til friðarviðræðna. Hann sneri aftur með friðarsamning upp á vasann. Bretar kættust og vonuðust eftir friði. Í október, stuttu eftir Þýskalandsför forsætisráðherra, léku Liverpool og Everton saman á Goodison Park fyrir framan 65.000 áhorfendur. Neville var þá nýkominn frá Þýskalandi og honum til heiðurs sungu áhorfendur breska þjóðsönginn fyrir leikinn. Everton vann leikinn 2:1 og meistaratitilinn um vorið. Leiktíðin 1939/40 hófst á hefðbundnum tíma en eftir aðeins þrjár umferðir var henni aflýst. Þann 1. september réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Bretland lýsti stríði á hendur Þjóðverjum. Síðari heimsstyrjöldin, mesti hildarleikur sögunnar, var hafinn. Ótti manna um styrjöld hafði því miður ekki verið ástæðulaus. Tveir ungir og efnilegir leikmenn Bob Paisley og Billy Liddell, sem síðar áttu heldur betur eftir að setja mark sitt á sögu Liverpool, höfðu hlakkað til að fara að leika með liðinu þetta haust. Þeir eins og aðrir þurftu að sinna öðrum og hættulegri skyldum næstu sex árin.

Heimildir liverpool.is

Framhald kemur seinna
-maniggi irc nick-Hvar a netinu get eg downloadað adsl ??????????????????????????