Í gær voru leikmenn í sumarskapi þegar 8 liða úrslitin í Deildarbikarnum fóru fram. Leikur FH og Vals fór fram á grasi, æfingasvæði Víðismann við Garðskagavita. FH-ingar fóru illa með Valsmenn 6-0. FH skoraði eitt mark í fyrri hálfleik en í þeim síðari stöðvaði ekkert Hafnfirðingana. Guðmundur Sævarsson og Jóhann G. Möller skoruðu tvö mörk hvor og þeir Heimir Guðjónsson og Jón Þorgrímur Stefánsson eitt hvor.

Skagamenn unnu KA 1-0. Eina taplausa lið riðlakeppninnar, KA, fengu ekki teljandi marktækifæri. Hjörtur Hjartarson, markakóngur úrvalsdeildarinnar í fyrra, skoraði sigurmarkið snemma í síðari hálfleik. Hann var klaufi að bæta ekki tveimur mörkum við en í tvígang hitti Hjörtur ekki boltann í dauðafæri. Breiðablik kom á óvart með því að leggja Fram að velli í Laugardalnum, 1-0. Það var Ásgeir Baldurs sem skoraði sigurmarkið í seinni hálfleiknum, eftir aukaspyrnu.

Keflvíkingar tóku á móti Fylki í Reykjaneshöllinni. Fylkir fagnaði sigri 3-1. Heimamenn náðu forystunni eftir 13 mínútna leik þegar Guðmundur Steinarsson skoraði úr vítaspyrnu. Árbæingar voru aðeins tíu mínútur að ná forystunni, fyrst skoraði Kristján Valdimarsson og síðan Sævar Þór Gíslason. Sævar Þór var aftur á ferðinni mínútu fyrir leikhlé þegar hann skoraði sitt annað mark, 3-1. Þar við sat, þrátt fyrir nokkra pressu Keflvíkinga á lokakafla leiksins.