Það er ekki gott að segja hvað vakir fyrir Einari Baardsen, umboðsmanni John Arne Riise, þessa dagana. Hann hefur gert það opinbert að hann hafi verið í sambandi við tvö félög á Spáni vegna piltsins og eru þau talin vera Real Madrid og Barcelona. Baardsen segir að áhugi fyrir pilti hafi vaxið mikið síðan hann var keyptur til Liverpool fyrir 4,5 milljónir punda síðasta sumar.

Baardsen: “Tvö topplið í Evrópu hafa verið í sambandi við mig út af John Arne Riise. Annað þeirra hafði samband við mig beint, en hitt félagið kom með fyrirspurnir í gegnum milliliði”.

Það er alveg ljóst að Houllier mun ekki taka því neinum vettlingatökum ef einhver umboðsmaður leikmanna hans er að vinna að einhverju svona á bakvið tjöldin og mun líklega einhver verða dreginn til ábyrgðar. Það eru ekki svona hlutir sem liðið þarf á að halda á þessum tímapunkti á leiktímabilinu. Houllier hefur alltaf sagt það skýrt og skorinort að ef leikmenn vilja fara, þá muni hann sjálfur fylgja þeim til dyra og yrði Riise þar engin undantekning, þrátt fyrir að hafa átt frábært tímabil fyrir Liverpool. Við sjáum hvað setur með þetta.