Hitt og þetta (FIFA listinn, Candela mótið o.fl.) FIFA-LISTINN
Ísland er í 56. sæti af 203 þjóðum á nýjum heimslista FIFA sem gefinn var út í dag. Íslenska landsliðið hefur fallið um eitt sæti síðan í mars en þá var það í 55. sætinu. Ísland hefur engan landsleik leikið frá útgáfu síðasta lista. Mótherjar Íslendinga í undankeppni EM, Þjóðverjar, Skotar, Litháar og Færeyingar, falla allir um eitt til tvö sæti frá síðata lista. Heimsmeistarar Frakka eru áfram á toppi listans og Brasilíumenn hafa náð öðru sætinu á ný úr klóm nágranna sinna, Argentínumanna. Tölurnar innan svigans gefa til kynna færslu landanna á listanum frá því í Desember.

1. Frakkland (0)
2. Brasilía (+1)
3. Argentína (-1)
4. Kólumbía (+1)
5. Portúgal (-1)
6. Ítalía (0)
7. Mexíkó (0)
7. Spánn (2)
9. Holland (0)
10. Júgóslavía (-1)

54. Grikkland (+3)
55. Georgia (+3)
56. Ísland (-4)
57. Ghana (+2)
58. Jamaica (-5)

-

CANDELA MÓTIÐ
Grindvíkingar tryggðu sér sigur á æfingamótinu í Candela á Spáni á sunnudaginn þegar þeir sigruðu FH, 2-0. Fylkir vann KR, 2-1. Sævar Þór Gíslason skoraði bæði mörk Fylkis en Þorsteinn Jónsson svaraði fyrir KR. Grindavík fékk 7 stig, Fylkir 4, FH 3 og KR 3 stig.

-

ÞORBJÖRN KOMINN Í GANG
Þorbjörn Atli Sveinsson lék sinn fyrsta leik á tímabilinu með Frömurum á laugardaginn, þegar þeir unnu stórsigur á Dalvík, 9-1, í deildabikarnum. Þorbjörn Atli var fljótur að láta til sín taka og skoraði þrennu í leiknum. (mbl.is)

-

27 LEIKIR Á 6 DÖGUM
Næstu sex daga, frá og með deginum í dag til og með næsta mánudegi, fara fram 27 leikir í Deildarbikar og Reykjavíkurmóti meistaraflokka karla og kvenna. Hrinan hefst í kvöld með þremur leikjum í Deildarbikarnum og tveimur í Reykjavíkurmótinu. Hingað til hefur nánast eingöngu verið leikið í Reykjaneshöll, á Ásvöllum og á Gervigrasvellinum í Laugardal, en næstu daga verður einnig leikið á KR-velli, Fylkisvelli, Stjörnuvelli og á KA-velli á Akureyri þar sem KA mætir Dalvík á laugardag. (ksi.is)