Draumur Arsenal um þrefaldan sigur, í ensku deildinni, enska bikarnum og í Meistaradeild Evrópu, stendur á brauðfótum. Ef þetta á að takast blasa við 18 leikir á aðeins átta vikum. Einnig eru átta leikmenn meiddir.

Leikjamaraþon Arsenal hefst hjá Aston Villa á sunnudaginn. Varnarmennirnir Tony Adams, Martin Keown, Matthew Upson og Ashley Cole, miðvallarleikmennirnir Ray Parlour og Giovanni van Bronckhorst, framherjinn Francis Jeffers og varamarkvörðurinn Stuart Taylor gátu ekki verið með í 2-0 tapi á móti Deportivo de La Coruña á þriðjudag. Þrátt fyrir tapið getur Arsenal komist í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar með góðu gengi á móti Juventus í Tórínó á miðvikudaginn.

Þremur dögum seinna mætir liðið Newcastle aftur í fjórðungsúrslitum enska bikarsins. Þann dag átti það að mæta West Ham en frestaði leiknum. Ef það kemst áfram í Meistaradeildinni þarf einnig að fresta leik á móti Charlton 1. apríl. Dagsetningarnar eru að klárast. Dennis Bergkamp er flughræddur og spilar því sjaldan í útileikjum á meginlandinu. Hann segir vatnaskil komin í tímabil Arsenal. “Það er ómögulegt að hafa unnið fullt af leikjum og kasta því á glæ síðasta mánuðinn,” segir Bergkamp. “Við þurfum hjálp slasaðra leikmanna og heppni. Því fyrr sem þeir snúa aftur því betra. Það væri hræðilegt ef allt myndi klúðrast þegar titlarnir eru innan seilingar.”

Manchester United og Liverpool eru helstu keppinautar Arsenal um enska meistaratitilinn. Bæði liðin eru dottin út úr bikarkeppninni og inni í Meistaradeild. United er komið áfram en Liverpool þarf að vinna AS Roma í næstu viku. United, sem gæti orðið fyrsta liðið til að vinna ensku deildina fjögur ár í röð, er með eins stigs forskot á Arsenal. Það mætir West Ham á morgun. Liverpool, sem hefur ekki unnið deildina síðan 1990 og er tveimur stigum á eftir United, fer til Middlesbrough.

Newcastle er sex stigum á eftir. Það mætir Ipswich, sem er í fallhættu. Chelsea er í góðu formi eftir tvo stórsigra á Tottenham. Það er í fimmta sæti og fær Sunderland í heimsókn. Á botni deildarinnar er útlitið svart hjá Leicester. Það mætir Southampton, sem tókst að klifra upp undir miðja deild. Derby er í næst neðsta sæti. Það fer í heimsókn til Bolton, sem er litlu fyrir ofan. Ipswich fer til Newcastle og Everton fær Fulham, sem er í undanúrslitum bikarsins, í heimsókn.

Á sunnudaginn tekur Leeds á móti Blackburn. Á mánudaginn reynir Tottenham að bæta fyrir töpin á móti Chelsea með því að vinna Charlton á heimavelli.