Kínverjar, sem undirbúa nú af kappi þátttöku sína í HM í Japan/Kóreu, hafði boðið Newcastle í keppnisferð til Kína, þar sem áformað var að félagsliðið léki tvo leiki við Kínverska landsliðið á síðustu vikunum fyrir HM. Forráðamenn Newcastle höfðu tekið vel í förina, ekki síst vegna þess að allir aðrir andstæðingar Kínverja í undirbúningnum eru þrautreynd landslið, og því heiður fyrir félagsliðið að fá boð sem þetta – síðan er ekki á hverjum degi sem ensku félagsliði býðst að leika fyrir allt að 800 milljónir sjónvarpsáhorfenda.

Leikirnir áttu að fara fram um miðjan maí, en nú hefur Newcastle semsagt horfið frá áformunum, þar sem fyrri leikur þeirra í Beijing hefði farið fram örfáum dögum eftir lok úrvalsdeildarinnar, á tíma sem fjöldi leikmanna hefði verið upptekinn við undirbúning eigin landsliða.