FIFA hefur afráðið að verða ekki við óskum sem fram höfðu komið um að gerð yrðu hlé á leikjum á HM á komandi sumri, til að gefa leikmönnum færi á að drekka meira. Skipulagsnefnd HM, undir forsæti Lennarts Johansson, komst að því að sem hiti í Japan og Kóreu væri ekki slíkur að þörf væri að breyta þeirri tilhögun sem tíðkast hefur að leikmönnum gefist tími til að svala þorsta sínum í eðlilegum hléum í leikjum. Einhverjir hafa raunar efast um að það væri velferð leikmanna sem höfð var að leiðarljósi þegar hléanna var óskað, heldur hafi menn þar horft til mögulegra auglýsingatekna af leikhléunum.

Nefndin tók fleiri ákvarðanir varðandi undirbúning og fyrirkomulag HM, s.s. að æfingar á HM skuli vera opnar fjölmiðlamönnum í það minnsta fyrstu 15 mínúturnar af hverri æfingu, nema hvað liðunum verður heimilt að loka einni æfingu fyrir hvern leik. Ekki þarf að skila 35 leikmanna listum í lok apríl eins og til stóð, heldur skal lokalista yfir þá 23 leikmenn sem verða í hópnum skilað fyrir 21. maí.