Einn af fimm verðlaunagripum Liverpool frá síðasta ári, sem hýstir hafa verið í Musterinu undanfarna mánuði, mun nú vera á förum. Deildarbikarinn sem vannst, í sjötta skipti, fyrir ári á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff eftir æsilega vítaspyrnukeppni við Birmingham fær nýjan dvalarstað á sunnudaginn. Þá leika Blackburn Rovers og Tottenham Hotspur til úrslita. Stuðningsmenn Liverpool fá því miður ekki tækifæri á að sjá lið sitt í úrslitum en þá er bara að velja sér lið til að halda með. Fyrrum leikmenn Liverpool verða í báðum leikmannahópum. Christian Ziege og Öyvind Leonhardsen eru í hópi Tottenham og innan raða Blackburn má finna þá Brad Friedel og Stig Inge Björnebye. Christian á möguleika á öðrum Deildarbikarmeistartitli sínum í röð. Hann var í sigurliði Liverpool fyrir ári og skoraði eitt marka liðsins í vítaspyrnukeppninni. Stig Inge varð Deildarbikarmeistari með Liverpool 1995 þegar Liverpool vann Bolton Wanderes 2:1. Bæði Stig Inge og Brad mæra Liverpool eftir dvöl sína þar. Brad sagðist til dæmis hafa fengið frábærar viðtökur hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar liðin léku í haust. Svo má ekki gleyma því að fyrrum fyrirliði og framkvæmdastjóri Liverpool Graeme Souness mun leiða Blackburn til leiks. Graeme Souness varð fjórum sinnum Deildarbikarmeistari með Liverpool. Það var árin 1981,1982,1983 og 1984. Þrjú seinni skiptin var hann fyrirliði og 1984 skoraði hann eina markið í aukaúrslitaleik gegn Everton á Maine Road. Aðstoðarmaður Graeme er Phil Boersma sem ólst upp hjá Liverpool og lék með liðinu áður en hann fór til Middlesbrough þar sem hann lék með Graeme. Phil hefur fylgt Graeme eins og skugginn á framkvæmdastjóra ferli hans og var aðstoðarmaður hans á stjórnarárum hans hjá Liverpool. Sigurmet Liverpool, sex skipti, í keppninni er ekki í hættu. Blackburn hefur aldrei unnið keppnina en Tottenham á þrjá sigra að baki 1971, 1973 og 1999. Þá er bara að velja með hvoru liðinu maður heldur. Kannski hvorugu en það er alltaf gaman að sjá fyrrum leikmenn Liverpool ganga vel.
——–