Það er útlit fyrir að Juventus ætli að vera stórtækir á leikmannamarkaðnum á sumri komanda. Reyndar er alltaf heil drullusúpa af sögusögnum umlykjandi lið af þessari stærðargráðu og því ómögulegt að segja til um hvað er hæft í slúðrinu, en þetta er nú einusinni eitt af því skemmtilega við boltann - hreyfingar á leikmannamarkaði. Eftirfarandi er samantekt af nokkrum netmiðlum:

Til að byrja með hefur það nú fengist staðfest að miðjumaðurinn David Baiocco, sem leikur með Perugia, muni fljúga í faðm “Gömlu konunnar” í sumar.

Annar orðrómur er þess efnis að Juve og Internazionale ætli að skipta á Cristiano Zanetti og Gianluca Zambrotta. Luciano Moggi hefur hrifist mjög af frammistöðu Zanetti hjá Inter í vetur og sér í honum eftirmann Edgar Davids sem líklega er á förum í sumar.

Ennfremur hafa Juventus-menn áhuga á í að krækja í Luca Toni sem hefur verið í hörkuformi hjá Brescia í vetur. Sama er að segja um varnarjaxlinn Gonzalo Martinez hjá Udinese. Hann er undir smásjánni.

Þá er að nefna að Juve virðast hafa tryggt sér vilnun fyrir því að geta keypt hinn sókndjarfa miðvallarleikmann Atalanta, Cristiano Doni. Gríðarlegur fengur þar á ferð - Doni verður líklega í HM-hóp Ítalíu í sumar og fer pottþétt frá Atalanta eftir tímabilið; ef ekki til Juve þá einhvert annað.

Loks er að nefna að orðrómurinn um að leikstjórnandi River Plate, Andres D'Allesandro, vill ekki deyja út, þó svo að Moggi&co harðneiti því ítrekað að eitthvað sé til í því að hann sé á leiðinni.