Loksins, loksins, loksins var heppnin með Arsenal.
Everton-aðdáendur eru sjálfsagt ekkert alltof sáttir, því liðið
þeirra átti ekki skilið að tapa þessum leik, en sem
stuðningsmaður Arsenal get ég ekki annað sagt en að það
var kominn tími til að heppnin gengi okkur í lið, eftir að hafa
misst af ótalmörgum stigum í vetur í leikjum þar sem við
vorum miklu betri.

Í Arsenal liðið vantaði auðvitað marga af bestu
leikmönnunum. Það vantaði vinstri vænginn (Cole og Pires),
hægri vænginn (Lauren og Ljungberg), meðreiðarsvein Henry
í framlínunni (Bergkamp) og meðreiðarsvein Campbell í
vörninni (Keown). Einnig vantaði mögulega staðgengla
(Adams, Kanu, og þótt Jeffers hafi verið á bekknum var hann
ekki í leikformi til að taka þátt í leiknum). Ég verð að segja
sem Arsenal-maður að Stepanovs, Luzhny og Grimandi eru
ekki traustvekjandi nöfn í liðsuppstillingunni, og ekki batnaði
ástandið þegar Upson meiddist, öldungurinn Dixon kom inn
á, og Luzhny fór í vinstri bakvörðinn!

Það þarf því varla að koma á óvart að í fyrri hálfleik vorum við
skelfilegir og Everton óheppið að skora ekki. Í seinni hálfleik
skánaði leikur minna manna þótt ekki værum við að fara neitt
sérstaklega illa með Everton-vörnina, en þetta undarlega
mark Wiltord réði úrslitum (ég hef sjaldan hlegið jafn mikið yfir
atviki í fótbolta). Mínum mönnum gekk betur að halda aftur af
sóknarmönnum Everton, sem sköpuðu sér lítið í leiknum,
þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Stepanovs til að gefa þeim
vítaspyrnu. Þar vorum við heppnir að dómarinn skyldi ekki sjá
þetta, en fimm gul spjöld meðan Everton fær ekkert? Við erum
að fá spjöld fyrir tæklingar sem aðrir sleppa með. En best að
kvabba ekki of mikið, við unnum eftir allt saman og það er fyrir
mestu.

Nýju mennirnir hjá Everton, Carsley og Ginola, voru að spila
vel þótt eitthvað drægi nú af Ginola í seinni hálfleik, enda varla
í mikilli leikæfingu. Ekki veitir af, því að þótt Everton hafi verið
síst lakari aðilinn í þessum leik gegn skelfilegu Arsenal liði,
þá eru þeir ekki að spila vel. Almennilegt lið hefði slátrað
okkur.

Nú fer hins vegar að fjölga í hópnum hjá Arsenal - Lauren og
Kanu snúa aftur frá Afríkukeppninni, aðrir að stíga upp úr
meiðslum og bönnum. Við munum gera áhlaup að titlinum,
svo mikið er víst.