ÞESSI GREIN ER COPY-PASTE AF WWW.GRAS.IS….

David O´Leary, sem hefur verið afskaplega duglegur að kvarta yfir meðferð dómara ensku úrvalsdeildarinnar gagnvart leikmönnum sínum í vetur, segist ekki geta sett neitt út á störf þeirra í leiknum gegn Newcastle á laugardaginn. Nú snýr hann sér hins vegar að leikmönnunum og segist vera farinn að hafa verulegar áhyggjur af agavandamálum þeirra inni á vellinum. Sex gul spjöld í leiknum og rautt á Danny Mills fyrir eitt af sínum heimskulegu brotum þýðir að félagið fær sjálfkrafa 25.000 punda sekt frá enska knattspyrnusambandinu. Það þarf vart að taka það fram að Leeds er fyrsta félagið á leiktíðinni sem nær þeim vafasama áfanga.

“Newcastle átti sigurinn fyllilega skilinn og ég óska þeim til hamingju.

”Leikmenn verða að fara að líta í eigin barm. Við höfum gott knattspyrnulið, en á sama tíma gróft. Ég ætla ekki að fara að afsaka það sem Mills gerði. Við erum nú að missa góðan bakvörð í fjögurra leikja bann.

“Ég ætla að ræða persónulega við Mills um þetta. Undanfarið höfum við fengið aðstoð frá fyrrverandi dómara í deildinni, Steve Lodge, til að ræða þessi agavandamál og fá ráð við því hvernig mönnum ber að haga sér á vellinum. Þrátt fyrir alla þessa fundi þá eru það leikmennirnir sjálfir sem verða að líta eftir sér á vellinum og þetta virðist ekki vera búið að skila sér,” sagði O´Leary.

Danny Mills á einnig yfir höfði sér dóm vegna brottrekstrarins gegn Arsenal fyrr í vetur og félagi hans Lee Bowyer er einnig með kæru á bakinu svo ekki sé minnst á Alan Smith sem hefur fengið sex rauð spjöld á stuttum ferli. O´Leary viðurkennir nú loks fúslega að hann sé farinn að hafa talsverðar áhyggjur af þessu öllu.

"Þetta er orðið áhyggjuefni og við munum verða án nokkurra lykilmanna á næstunni. Því er nauðsynlegt að fara að endurheimta aðra úr meiðslum. Ég er samt ánægður með stöðu okkar í deildinni og ef við fáum nokkra leikmenn í hópinn sem hafa verið meiddir að undanförnu, þá er ég sannfærður um að við endum í einu af fjórum efstu sætunum.