Fjögur ensk lið eru nú sögð á höttum eftir framherjanum Savo Milosevic. Það var umbi hans sem greindi frá þessu og West Ham virðist vera þar fremst í flokki enda þurfa þeir kannski að fá nýjan mann í stað Paolo Di Canio. Glenn Roeder er sagður telja Savo rétta manninn til að taka við af Ítalanum snjalla, fari hann á Old Trafford.
Umbinn Predrag Jevremovic segir að liðin fjögur hafi spurst fyrir um Savo og Hamrar ætluðu að skoða hann í bikarleiknum gegn Udinese. “Það eru fjögur lið frá Englandi sem hafa áhuga á Savo og við fáum að vita meira bráðlega,” sagði umbinn. “Við vitum ekkert þessa stundina.”
Savo hafnaði nýverið möguleika á að fara til Blackburn og vildi frekar vera hjá Parma og berjast fyrir sæti sínu en Jevremovic telur samt að hann kunni að vilja fara aftur til Englands. “Líklega já, Savo hefur áhuga á að fara aftur til Englands,” sagði umbinn.