Leikur liðs United hefur ekki verið upp á marga fiska á þessu tímabili. Ef ég vissi ástæðuna þá væri ég líklega farinn til Manchester og væri að tala við Ferguson. Þó kemur ýmislegt til greina; Verón var keyptur og hann hefur breytt spilinu mjög mikið. Hann þarf að átta sig á því að styrkleikur United felst í því að fara fyrir aftan bakverðina og koma sendingum fyrir, sérstaklega hægra megin frá. Liðið reynir alltof mikið að fara upp miðjuna og þetta verður eilíft hnoð. Beckham hefur einnig verið mikið frá. Vörnin hefur verið slöpp, Brown var hent og snemma inn í liðið og Ferguson þurfti að gjalda fyrir það. Blanc var lengi að komast í leikæfingu, en hann var nú varamaður hjá Inter.
Þar sem ég er United maður hefur þetta verið sárt, að horfa á liðið spila svona. Liverpool menn hafa verið í essinu sínu og eru sjálfsagt ánægðir með góða stöðu, þeim gengur vel en okkur ekki.

En sjáiði einmitt þetta, allir undrandi yfir því hvað united spilar illa, en þeir eru bara þremur stigum á eftir Liverpool og sex stigum á eftir Newcastle. Það er ekki hægt að afskrifa United, þrátt fyrir að menn hafa verið að gera það hver af öðrum. Ef einhver leikmannahópur á Englandi kann að vinna þá er það hópur United. Allir leikmennirnir hafa orðið meistarar í Englandi, fyrir utan Verón og Van Nistelrooy, en það ekki langt síðan báðir þeirra urðu meistarar, Ruud með PSV og Verón með Lazio.

Eftir sigur í síðustu fjórum deildarleikjum erum við United komnir með sæmilega stöðu í deildinni. Uppstillingin gegn Everton, eftir að Beckham kom inná, er líklega sú sterkasta sem að við eigum. Vörnin lætur lítið yfir sér, engar stjörnur en allt er í lagi með enginn gerir bombertur. Miðjan er náttúrulega ein sú sterkasta í heiminum og Ruud frammi er hættulegur, hann hefur skorað 9 mörk í sex leikjum, sem er frábært.

Ég er ekki að segja að United séu bestir um þessa stundina, alls ekki, ég er einfaldlega að segja að menn mega ekki afskrifa þetta lið, þeir kunna að vinna!