Keflavík vann Grindavík í úrslitaleik jólamóts Hitaveitu Suðurnesja. Staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn 4-4 og þurfti því að bregða sér í vítaspyrnukeppni. Þar skipti sköpum að Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Keflavíkur, varði víti Sinisa Kekic og fögnuðu því heimamenn sigri því mótið fór fram í Reykjaneshöllinni. Í leik um 3. sætið vann Fram ÍA einnig eftir vítaspyrnukeppni en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 2-2.

Í undanúrslitum sigraði Grindavík Íslandsmeistara ÍA 10-9 eftir vítaspyrnukeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1. Markaskorarar í venjulegum leiktíma voru Ellert Björnsson fyrir ÍA og Sinisa Kekic fyrir Grindvíkinga. Mótið hófst með leik Keflvíkinga og Framara sem fór 4-0 og Guðmundur Steinarsson skoraði þrennu í leiknum. Ágætis árangur hjá Keflavík sem eru í miklum fjárhagserfiðleikum.