Í kjölfar slæms gengis Manchester United í vetur hefur umræðan um framtíð David Beckham hjá félaginu blossað upp sem aldrei fyrr.

Beckham ítrekar þó í viðtölum við breska fjölmiðla í dag að hann sé síður en svo á förum frá félaginu og bætir við að hann hafi ekki enn gefið upp von með að vinna deildarmeistaratitilinn á þessu tímabili.

“Ég hef gefið Man. Utd. síðustu tíu ár af ferli mínum og ég held að ég hafi lagt mig allan fram á þeim tíma.

”Ég vil halda áfram að spila með Man. Utd, það er liðið sem ég styð og þar er ég elskaður af stuðningsmönnunum og ég elska þá,“ segir Beckham.

Beckham hefur verið hvíldur í undanförnum tveim leikjum en hann kom þó inn á um helgina í tapinu gegn West Ham. Beckham segir að Ferguson hafi haft rétt fyrir sér með því að hvíla hann.

”Ég held innst inni að ég hafi haft þörf fyrir að hvíla mig. Ég myndi aldrei játa það fyrir sjálfum mér né neinum öðrum að ég hafi þurft á því að halda en innst inni vissi ég það.

“Ég ætla ekki að véfengja ákvörðun framkvæmdastjórans - þetta var hans ákvörðun og ég virði hana. Að sjálfsögðu vil ég spila alla leiki en það er því miður ekki hægt,” sagði Becks um hvíldina.

Beckham bætti síðan við að lokum að strákarnir í liðinu væru ekki búnir að afskrifa möguleika sína á titlinum eins og Ferguson hefur gert.