Baráttan um dolluna fínu. Kíkti á boltann í dag, Man Utd-Chelsea og lokin hjá Derby og Liverpool. Varð að vísu alveg gáttaður þegar ég sá að Leicester vann Aston Villa, og það á útivelli, en sem betur fer gerast óvæntir hlutir í þessum boltaleik. Mikið var ég fúll út í Ravanelli að framkvæma svona slaka vítaspyrnu. Bévaður maðurinn að gera mér þetta, nú er Liverpool heldur betur á beinu brautinni.
Ekki skil ég afhverju Wenger hætti við að kaupa Dúdda Liverpool markmann, það hefði nú komið sér vel fyrir hann nú en Púllarar þykjast víst heppnir með það.
Ég nenni nú ekki að vera að bauna neinu á Man Utd menn, en hlutirnir eru nú ekki alveg að ganga upp hjá þeim, þessa dagana. Las, ekki fyrir löngu síðan, grein eftir einhvern spesjalista á einhverjum enskum netmiðli að þeir ættu nú að drífa sig í að redda nýjum stjóra, því liðið virtist í lausu lofti þegar allir vissu að Fergie væri að fara en vissu ekkert hver kæmi í staðinn. Svei mér þá, ef þetta er ekki bara rétt. Þegar Sven Göran var í viðræðum við Englendinga fór Lazio að ganga þvílíkt illa að hann var bara sendur til Englands, med det samme. Svo las ég annan pistil þar sem sagt var að best væri að senda Barthes í frí í eins og einn mánuð, til að hlaða batteríin og sjá hvort hann kæmi ekki tvíefldur inn aftur. Það er nú greinilegt að sjálfstraustið hefur heldur betur minnkað hjá kappanum, ef hann væri í sínu besta formi hefði hann nú ekki látið Eið skora þetta mark og sennilega ekki Hasselbaink heldur. En góður sigur hjá Chelsea, engu að síður. Þeir eru bara svo “upp og ofan” að ég hef enga trú á þeim í toppsætinu í vor, held samt að þeir verði í ca 5-6 sæti.
Einhver var að spyrja hvort við Leedsarar myndum ekki krefjast einhverra titla í vetur, eftir eyðslu O´Leary´s. Maður krefst nú svosem einskis, beinlínis, en vonar auðvitað það besta. Kosturinn við liðið er að þarna eru gríðarlega margir ungir og góðir leikmenn og margir unglingar sem fara að banka á dyrnar bráðlega. Þeirra er framtíðin og ég er afar hress með Fowlerinn, þó mér þyki líklegt að Viduka fari til Italíu bráðlega. Væri gaman að hafa Fowler fremst, með Kewell og Bowyer á köntunum og Smith til að berjast þar fyrir aftan. Margir leikmenn, þám Batty, vilja piltinn á miðjuna, segja að þar eigi hann heima enda býsna fylginn sér, strákurinn, og hleypur tvöfalt maraþon í leik. Mínir menn mega þó ekki við miklum skakkaföllum, það er ljóst eftir 2 töp í röð. Vonandi taka þeir Fulham á morgun, þó ekki verði það létt.
Newcastle var nokkrum mínútum frá því að vinna sinn fyrsta leik í London – af síðustu 28- en klikkuðu á lokasprettinum og Charlton jafnaði. Shearer blakaði hendi í trýnið á charltonkalli í skallaeinvígi og sendur í sturtu á undan hinum.
Arsenal heldur áfram að vinna, tóku Hermann og co 2-0 og Ipswich í fremur slæmum málum. Þeir eru þó að endurheimta menn úr meiðslum og ég vona að þeir fari að hala inn einhver stig.
Mér list ekkert of vel á hvað Púllararnir eru góðir en þegar menn fá að byggja upp lið í þokkalegum friði gengur það á endanum. Þetta er skruggugott lið og ég get ekki annað en vonað að uppbyggingin hjá mínum mönnum skili sér í vetur og þeir hjóli í Liverpoolmenn í kapphlaupið um sigur í úrvalsdeildinni.