Eysteinn Hauksson og Keflavík Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur lýst yfir furðu sinni á skrifum Eysteins Haukssonar á netsíðu Víkurfrétta (www.vf.is). En þið getið skoðað skrif hans undir titlinum “Aðsent”. Svona lýtur tilkynningin frá Keflvíkingum út:

Við eigum ekkert sökótt við Eystein né hann við okkur. Staðreyndir málsins eru að nú í lok október rann út samningur milli Eysteins Haukssonar og Keflavíkur. Það er rétt að komi fram að Keflavík stóð
í einu og öllu við þann samning sem í gildi var þrátt fyrir að Eysteinn hafi nánast ekkert leikið fyir Keflavík í rúm tvö ár. Fáir leikmenn hafa fengið eins góðan samning undanfarinn átta ár eins og Eysteinn. Hlaupið hefur verið undir bagga með honum fjárhagslega þegar hann hefur verið í kröggum. Keflavík hefur gert miklu meira fyrir hann heldur en samningur segir til um. Nú á dögunum var sest niður með Eysteini með það í huga að gera nýjann
samning. Þegar upp var staðið var Eysteinn ekki tilbúinn að slá neitt af og vildi nánast sama samning og hann hafði haft. Allt tal um að hann hefði verið tilbúinn að spila frítt eru staðlausir stafir og gaspur eitt. Keflavík gat ekki sætt sig að gera samskonar samning við hann svo uppúr viðræðum slitnaði. Eins og í grein Eysteins kemur fram, er það eina sem hann hefur á Keflavík, er að við vildum ekki semja við hann og að við drógum hann á svari
í 3 til 4 daga. Síðan hvenær hefur Keflavík ekki rétt til að ákveða við hvaða leikmenn á semja, og þó að það dragist að svara mönnum í nokkra daga er það vart tilefni til níðskrifa og skítkasts. Keflavík ætlar ekki að svara þessari grein Eysteins því hún dæmir sig sjálf. Það er sannfæring okkar að Eysteinn muni sjá eftir að hafa skifað þessa grein, þegar hann nær áttum. Við í stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur teljum okkur hafa komið fram af heilindum í þessu máli og höfum algjörlega hreinan skjöld. Keflavík á í miklum fjárhagserfiðleikum (sem Eysteinn kýs að gera grín að) og skera þarf niður í rekstri deildarinnar og það er margt skemmtilegra en þurfa vísa mönnum frá. Knattspyrnudeild Keflavíkur mun standa fyrir skuldum deildarinnar af ábyrgð og greiða þær upp á 4 til 5 árum. Það er rétt að það komi fram, þessar skuldir eru allar tilkomnar vegna þess að í Keflavík er
verið að halda úti Úrvalsdeildarliði í knattspyrnu. Nú er komið að því að greiða skuldir og reka deildina réttu megin við núllið. Nú ríður á að menn standi samann og hætti þessu þrasi og horfi til framtíðar.
Knattspyrnudeild Keflavíkur



Þannig er nú það! Ekki alltof mikil vinátta milli Eysteins og Keflavíkur þessa stundina. Ég hvet ykkur til að kíkja á grein Eysteins á www.vf.is.