Breytingar í íslenskri knattspyrnu - samþykktir af 61. ársþingi KSÍ Í kjölfar 61. ársþings KSÍ, er ekki úr vegi að líta aðeins yfir þær tillögur sem voru samþykktar á þinginu og hvað þær fela í sér. Þær tillögur sem voru samþykktar sem fela í sér mismiklar breytingar, en allar eiga þær að stuðla að velmegun knattspyrnunnar á Íslandi. Hér verður þó aðallega fjallað um fjórar þeirra.

Fyrst ber að nefna tillögu um fjölgun liða í efstu deild og annarri deild karla úr 10 liðum í 12 lið og efstu deild kvenna úr 8 liðum í 10 lið (þó það verði 9 lið í efstu deild kvenna í ár).
Í fyrra var samþykkt tillaga um fjölgun liða í fyrstu deild karla úr 10 liðum í 12 lið og verður leikið eftir því fyrirkomulagi í sumar sem mun gefa ákveðna reynslu fyrir næsta ár, þegar fjölgað verður í efstu og annnarri deild karla auk efstu deild kvenna.
Með þessari samþykkt má búast við harðri baráttu í fyrstu, annarri og þriðju deild karla, þar sem fleiri lið komast upp um deild en í fyrra, auk þess að einungis eitt lið mun falla úr þremur efstu deildum karla. Þá munu 3 lið fara upp úr fyrstu og annarri deild, en fimm lið munu komast upp úr þriðju deild. Í þriðju deild verður leikin sérstök úrslitakeppni til að ákvarða hvaða lið hlýtur fimmta sætið, en liðin sem komast í undanúrslit komast öll upp í aðra deild karla að ári.
Í kvennaboltanum mun eitt lið falla úr efstu deild kvenna og tvö komast upp úr fyrstu deild kvenna, þar sem 9 lið leika í efstu deild kvenna í ár.
Það er vonandi að þessi samþykkt eigi eftir að stuðla að skemmtilegra Íslandsmóti í meistaraflokki og að baráttan verði hörð í öllum deildum í sumar.

Tillaga HK um að varalið gæti leikið í neðri deild var vísað til stjórnar KSÍ á ársþinginu og verður ekki rætt frekar um þá tillögu hér. Tillöguna má lesa hér.

KFS kom með tillögu um breytingu á VISA-bikarkeppni karla. Tillagan er svo hljóðandi (tekið af vef KSÍ):
Í stað 3.9.1.5.: „Í undankeppni taka þátt öll lið nema þau, sem taka þátt í Landsbankadeild……………..að 6 lið komist áfram í aðalkeppnina…."
komi: „Í undankeppni taka þátt öll lið nema þau, sem ekki taka þátt í Evrópukeppni það árið, auk 12 efstu annarra liða árið áður og keppni liðanna hagað svo, að 12 lið komist áfram í aðalkeppnina (24 liða úrslit). Þar bætast við 12 efstu félögin fyrir utan félögin í Evrópukeppni, frá árinu áður. Í næstu umferð á eftir (16 liða úrslit) bætast svo við félögin 4, sem taka þátt í Evrópukeppni það árið. Skal undankeppni lokið eigi síðar en 15. júní.

Í stað 3.9.1.6.: „Aðalkeppnin skal hefjast….úr Landsbankadeild." komi: „Aðalkeppnin skal hefjast eftir 15. júní. Í fyrstu umferð aðalkeppni (24 liða úrslitum) skulu lið leika á heimavelli, ef þau eru úr neðri deild, en liðið, sem dregst á móti, annars ræður dráttur heimavelli. Öll liðin 24 geta dregist saman, óháð röðun í deildir."
Þessi breyting (sem verður líklegast árið 2008 frekar en í ár) þýðir að forkeppnin í VISA-bikar karla verði að klárast fyrir 15. júní og að 12 lið komist áfram úr undankeppninni.
Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að 6 lið komist í aðalkeppnina, sem hefst í 16 liða úrslitum þegar liðin 10 úr efstu deild karla koma inn í keppnina.
Með þessari breytingu munu því 12 efstu liðin úr Íslandsmóti ársins á undan sitja hjá þangað til í 24 liða úrslitum, nema lið sé í Evrópukeppni, en þá situr það hjá þar til í 16 liða úrslitum. Þetta þýðir það að efstu liðin í fyrstu deild karla eiga þess kost að sitja hjá þangað til í 24 liða úrslitum, í stað þess að koma inn í 3. umferð eins og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir.
Breytingin er til batnaðar, en þó mætti gera betur hvað fyrirkomulag á bikarkeppni karla varðar. Margar skoðanir eru þó uppi hvað það varðar.

HK lagði fram tillögu um að markverðir í yngri flokkum (3., 4., 5. og 6. flokki) verði heimilt að leika sem útileikmaður með liði af öðrum styrkleikaflokk. Þannig væri markverði í A-liði heimilt að leika sem útileikmaður með B-liði og markverði í B-liði heimilt að leika sem útileikmaður í A-liði o.s.frv.
Tillagan var samþykkt og verður fróðlegt að sjá hvort þjálfarar muni nýta sér þennan nýja möguleika í ár.

Síðast er hér talin upp tillaga Þórs Akureyri um að landsliðsþjálfarar sem ráðnir eru til sambandsins séu ekki þjálfarar viðkomandi aldursflokka hjá félagsliði á sama tíma og þeir eru í starfi sem landsliðsþjálfarar hjá KSÍ. Ársþingið samþykkti að beina þessum tilmælum til stjórnar KSÍ.


Það er því ljóst að framundan eru miklar breytingar í knattspyrnunni á Íslandi og vonandi verða þær allar íslenskri knattspyrnu til bóta. Fjölgun liða í efstu deildum gefur fleiri liðum og fleiri leikmönnum tækifæri til að spreyta sig á hærri stigum og leiðir vonandi til skemmtilegra knattspyrnutímabils á Íslandi.



Myndin er fengin af vef KSÍ, www.ksi.is, líkt og upplýsingar af ársþingi KSÍ (tillögur og samþykktir).
Kveðja,