Í hvað er fótbolti að snúast? VILL TAKA ÞAÐ FRAM AÐ ÉG Á EKKI GREININA, HÚN ER TEKIN AF SPJALLBORÐI ARSENAL.IS FRÁ SPJALLARANUM SBrG! HÉRNA ER HÚN EINNIG VILDI BARA SKAPA SMÁ UMRÆÐU :P

Nú þegar kaup Bandaríkjamannanna á Liverpool eru gengin í gegn þá held ég að sé við hæfi að við, sem Arsenalfólk, stöldrum aðeins við og skoðum hvað er að gerast í kringum okkur. Þar sem almennt er talað um fjögur stóru, Arsenal, Chelsea, Liverpool og Manchester United þá er eðlilegast að við miðum okkur við þessi þrjú félög og ég byrji á að ræða þau aðeins. Það fer sjálfsagt ekki framhjá neinum að hin þrjú eru í eigu auðkýfinga, misjafnlega auðugra en allir eru þeir menn sem hafa sýnt það með djörfum fjárfestingum að þeir eru ekki hræddir við háar fjárhæðir og líklega fátt sem kemur í veg fyrir að ef þeir fái það sem þá langar í, sjái þeir eitthvað sem þeir virkilega vilja. Ef við skoðum svo aftur stöðuna hjá okkur þá höfum við, síðustu tvö sumur, sjálfsagt ekki eitt einu einasta pundi sem ekki hefur komið aftur í kassann með sölu á öðrum leikmönnum. Þannig hafa Ashley Cole, Patrick Vieira, Robert Pires, Lauren, Dennis Bergkamp, Sol Campbell og líklega brátt Freddie Ljungberg horfið á braut og sumir hverjir skilað peningum í gegnum sölu en aðrir hafa orðið til þess að launakostnaður minnkar. Í staðinn hafa komið ungir leikmenn eða leikmenn sem eru ekki jafn stór nöfn og hafa því ekki jafn há laun. Ef við gefum okkur að þessir sex leikmenn hafi allir verið með 50,000 pund á viku (sem er bara til einföldunar) þá eru útgjöldin að minnka um 15,6 milljónir punda á tímabili. Eboue, Senderos, Hleb, Rosicky, Adebayor og Fabregas eru sjálfsagt bara með brot af þessum launum. Ég gæti ímyndað mér að launin hans Vieira færu langt með að dekka laun þeirra allra. Það er því ljóst að við höfum ekki peninga til að henda í arininn, við líðum líklegast til engan skort en samanborið við hin liðin erum við ekki hálfdrættingar, langt í frá.

Með tilkomu þessara fjárfesta, eða kannski öllu heldur ævintýramanna, er ástandið varla að fara að breytast mikið okkur í hag. Aukin innkoma af nýjum velli á eftir að skila sér inn í félagið að litlu leyti á næstu árum gæti ég ímyndað mér. Þrátt fyrir að allir stjórnarmenn félagsins séu drjúgir í viðtölum þá hef ég ekki enn séð margt sem gefur þeim orðum einhvern trúverðugleika. Svo gæti náttúrlega alveg verið að þetta sé bara Wenger og hans leið. Selja leikmenn sem eru á toppnum til að gefa æskunni tækifæri. En hversu líklegt er að hann geri þetta jafn stöðugt og hann hefur gert á meðan peningar hlaðast upp í bankanum? Eftir taplausa tímabilið okkar hefði ekki vantað mikið upp á að gera liðið nánast fullkomið. Einn til tveir nýir leikmenn í hæsta gæðaflokki hefði sjálfsagt getað gert okkur enn sterkari en þess í stað eru fjórir leikmenn enn hjá okkur af því liði. Einungis Lehmann, Toure, Gilberto og Henry eru ennþá í byrjunarliðinu. Það er mjög hröð endurnýjun á þremur árum.

Eitt atriði í þessu er konungur og keisari félagsins, veikbyggði Frakkinn í brúnni, hvað gerist þegar hann hverfur á braut? Ef marka má nýja viðtalið við hann í The Sun þá sækja margar stórar hugsanir á hann þessa dagana, hugsanir um hluti sem eru mikið mikilvægari en fótbolti. Hvað gerist þegar hann hættir? Verður þarna maður sem hefur sömu hæfileika til að breyta vatni í vín, breyta spretthörðum varakantmanni Juventus í besta leikmann heims, breyta óöguðum Fílabeinsstrandarbúa í einn besta miðvörð heims? Ég hreinlega verð að segja nei, við getum ekki og megum alls ekki gera ráð fyrir því að bara þó hlutirnir gangi nokkuð vel núna að þeir komi til með að gera það þegar einhver nýr stjóri tekur við af Wenger. Hvað ef næsti stjóri nær árangri í réttu hlutfalli við útgjöld? Hvað ef við verðum að berjast við Tottenham um miðja deild? Hvað ef Aston Villa, Portsmouth og West Ham fara að bæta sig og þessi nýi stjóri stendur sig ekki jafn vel og Wenger? Hvað ef hann kaupir næsta Crouch? Þá minnka vinsældir félagsins og gamli kjarninn sem ef til vill er búið að fæla í burtu með háu miðaverði, hinn almenni ,,neðristéttar“ London-búi sem ólst upp á Highbury, koma þeir aftur? Þó þeir komi aftur, verður það nóg til að standast greiðslur af lánunum? Erum við að taka Wenger og hans störf sem einhvern fasta sem við getum gert ráð fyrir að haldi sér um ókomin ár? Það væru stór mistök.

En hvað er til ráða? Fara á hnéin og biðja um einhvern siðblindan erlendan fjárfesti til að fjármagna okkur í sömu vitleysu og Chelsea? Nei takk. Nú er talað um að Benitez fái 150 milljónir til leikmannakaupa. Sjálfsagt er sú tala ýkt en segjum sem svo að hann fái 75 milljónir, hvað gerist þá? Ef þeir styrkja liðið sitt með alvöru sóknarmönnum, hvað gerist þá? Verða þeir þá ekki illviðráðanlegir? Hvað ef Platini fer gegn G14 hópnum og setur þriggja liða hámark á hverja deild hvað varðar þátttöku í Meistaradeildinni? Verðum við þá að treysta á að nýr stjóri með lítið veski nái að skáka allavega einu af þessum þremur stóreyðslufélögum á hverju ári svo við getum haldið okkar stöðu? Það er ekkert sérlega álitlegur kostur. Eins og það er ömurlegt að segja það þá held ég að eina leiðin til að halda í við þessi lið sé að fá einhvern svona peningamann inn í félagið. Ekki nema þessar lúxusíbúðir á Highbury skili það miklum peningum í kassann að við höfum efni á að viðhalda liðinu og borga af þessu 260 milljón punda láni. Það má vel vera að það takist og það er ekkert sem gæti gert mig ánægðari en það hljómar því miður bara sem barnsleg einfeldni að trúa því.

Þó Wenger sé búinn að byggja upp frábært lið fullt af ungum leikmönnum þá er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess að þetta lið ráði við lið sem búin eru til úr heimsins besta hráefni, endurbætt á hverju ári sama hvort það er leikmannalega- eða þjálfaralega séð. Að sama skapi held ég að 98/99 lið Manchester United hefði ekki haft mikið í svoleiðis lið að segja, þar sem það lið er sjálfsagt að einhverju leyti hugmyndafræðileg fyrirmynd þess liðs sem Wenger er að byggja upp.

Það er eiginlega sorglegt að þetta hafi þurft að enda svona. Ég get ekki með nokkru móti séð að fótboltinn eigi eftir að gera annað en verða leiðinlegri héðan af. Þar sem peningalega hliðin hefur oftast nær verið stærsti þátturinn í því hvort liðin nái stöðugleika eða ekki. Ef litið er á West Ham. Hvernig væri liðið þeirra ef þeir hefðu ekki þurft að hafa áhyggjur af peningum öll þessi ár? Joe Cole, Frank Lampard, Rio Ferdinand, þetta lið hefði svo sannarlega getað gert það gott í Úrvalsdeildinni. Hvað gerist þegar fleiri og fleiri lið þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum að neinu leyti? Öll skynsemi snarminnkar, leikmannakaup verða ekki áhætta heldur er frekar litið á þau kaup sem ekki takast sem sjálfsögð afföll af fjárfestingum.

Þrátt fyrir allt þetta þá vona ég að við fáum að vera áfram í eigu ,,ríkra” manna sem hafa þó ekki efni á að fjármagna alla duttlunga stjórans. Ég set gæsalappir utan um þetta því eins og staðan er í dag þarf að endurskilgreina hver er ríkur og hver ekki. Það er ekki nóg að búa í 250 fm einbýlishúsi og eiga nýlegan jeppa til að vera álitinn ríkur, þú þarft að eiga knattspyrnufélag og sjö verslunarkeðjur til að vera maður með mönnum. Daniel Fiszman er til dæmis metinn á 154 milljónir punda og á 25,17% af félaginu. Roman Abramovich á aftur á móti 10 milljarða punda. Roman er því um 65 sinnum ríkari en Fiszman. Hefði Fiszman hinsvegar lagt jafn stóran hluta peninga sinna í Arsenal og Roman hefur gert hjá Chelsea þá hefð Fizsman eytt 6,2 milljónum, hefði næstum dugað fyrir Rosicky. Hefði dugað fyrir tæplega hálfum Jon Obi Mikel.

Það er í rauninni ótrúlegt að þessir menn fái ekki meiri ánægju út úr því að aðstoða vanþróuð lönd eða eitthvað annað uppbyggilegt heldur en að gefa örfáum íþróttamönnum alla þessa peninga.