amla stórveldið Inter er alveg einstakt félag. Nú hefur liðið fengið nýjan þjálfara enn eina ferðina og hann hefur fengið óendanlegt fjármagn til leikmannakaupa. Milljónirnar hans Moratti hafa streymt út að venju og Hector Cuper ætti að hafa skapað lið að sínu skapi. Bekkurinn er svo sterkur að B-lið félagsins hefði burði til að standa sig í Serie A. Liðið hefur leikið vel á undirbúningstímanum og Inter er almennt talið einna líklegast til að hreppa Scudettoinn. Það verður hins vegar erfitt fyrir Cuper að sætta allar stjörnurnar og fá liðið til að smella saman.
Þeir Ronaldo og Vieri leiða sóknina og því ættu áhangendurnir ekki að þurfa að kvíða markaleysi. Af nýju mönnunum er rétt að nefna Grikkjann Georgatos og Brassann Adriano. Georgatos var farinn heim en Inter-menn kölluðu hann aftur til starfa. Hann er geysilega beinskeyttur og kraftmikill vængmaður sem gæti átt eftir að springa út í vetur.
Inter vann síðast Scudettoinn árið 1989 og Cuper er níundi þjálfarinn sem Moratti fær. Ef honum tekst það sem hinum tókst ekki er ekki vafi á að Inter fer alla leið. Á pappírunum er þetta langöflugasta liðið. Það er hins vegar ekki nóg að borga stórstjörnunum laun, það þarf að fá þær til að spila saman og virka sem lið.