Eftir 8 umferðir eru Chievo Verona á toppnum í Serie A með 19 stig, 4 stigum meira en stórveldin AC Milan, Internazionale og AS Roma. Það er óhætt að segja að upp er komin staða sem enginn átti von á í upphafi móts. Stóra spurningin er auðvitað þessi: er liðið einfaldlega í hópi bestu liða á Ítalíu, eða mun liðið láta undan þegar líður á tímabilið ?! Persónulega hallast ég að því síðarnefnda, en þeir hafa samt enst lengur í toppbaráttunni en ég átti von á og ég held að það sé alveg ljóst að þetta lið getur lagt hvern sem er að velli þegar stuðið er á þeim. Svo er aftur sá flötur á málinu að þegar lið af þessari stærðargráðu láta svo rækilega að sér kveða, þá er bókað mál að stórliðin taka til við að kaupa alla bestu leikmennina. Þannig fer þetta alltaf. Það verður þó spennandi að fylgjast með Chievo í vetur.