Hverjir eru bestir? Villa?? Ef einhver hefði sagt mér í lok síðasta tímabils að Aston Villa myndu toppa deildina eftir 10 umferðir í vetur hefði maður nú gargað yfir ruglinu enda eitt lélegasta og leiðinlegasta liðið í fyrra. Hinsvegar eru þeir greinilega í toppformi núna og allir sáttir við að hafa ekki rekið John Gregory, eins og við mátti búast, lengi vel í vor.
Hann heldur því þó fram á teamtalk að það þýði ekkert að vera uppi í skýjunum yfir árangrinum því nokkur lið séu alveg jafngóð!! og Villa og ætli sér ofar. Ég leyfi mér að efast um að Villa verði þarna á toppnum lengi, þó þeir geri eflaust góða hluti í vetur. Angel skorar og skorar og Scmheichel ver eins og berserkur svo það er svosem allt í gúddí hjá þeim. Nema það að fyrrum landsliðsvarnarmaðurinn Gareth Barry vill nú ólmur í burt enda fær hann aldrei að spila með. Það er nú sorglegt fyrir ungan pilt sem á framtíðina fyrir sér. Hann lét hafa eftir sér að hann væri þakklátur Villa mönnum að kaupa sig frá Brighton og þó hann væri aðeins tvítugur teldi hann sig alveg nógu góðan sem úrvalsdeildarleikmann enda í landsliðinu fyrir ári síðan. Hann hefur ekki byrjað leik í haust og vill burt. Eflaust vill einhver kaupa hann.