Það er líklega óhætt að segja að fyrirliði Parma, Fabio Cannavaro, sé sá leikmaður sem hefur verið sagður á leiðinni til flestra stórliða í Evrópu án þess að nokkur fótur sé endilega fyrir því. Á síðustu 12 mánuðum hefur hann til dæmis átt að vera á leiðinni til Real Madrid, Barcelona, Man United, AC Milan, Internazionale, Juventus, SS Lazio og Roma. Cannavaro er auðvitað frábær leikmaður, tvímælalaust í hópi bestu varnarmanna heims í dag, svo það er ekki skrýtið að stórlið hafi augastað á honum. Það hjálpar líka fiskisögununum á flug að Parma eru ekki stórlið per se. Vissulega skemmtilegt lið og klárar vanalega tímabilið ofarlega í töflunni en nær aldrei að gera almennilega atlögu að titlinum. Það gæti enginn álasað Cannavaro að vilja spreyta sig hjá klúbbi sem getur keppt um stærstu verðlaunin. Fabio hefur hins vegar aldrei tekið undir sögusagnirnar og segist ekki sjá neina ástæðu til að fara frá Parma (serious?!?). Hann viðurkennir reyndar að liðið eigi ekki séns í eitt eða neitt á þessu tímabili, en það hafi nú allir vitað fyrirfram. Málið sé að liðið muni verða öflugt í framtíðinni. Þetta er vissulega göfugt viðhorf hjá honum, en svo er bara að sjá hvort verður yfirsterkara; sigurviljinn eða trúmennskan við Parma. Persónulega spái ég því að Fabio Cannavaro sé að spila sitt síðasta tímabil með Parma.
Forza Milan.