FUTSAL - breytingar til batnaðar Futsal – breytingar frá núverandi innanhússknattspyrnu

Það er nokkuð liðið síðan ég sagðist ætla að skrifa grein um muninn á Futsal og þeirri innanhússknattspyrnu sem leikin er hér á Íslandi í dag, en nú skal bætt úr því.
Eins og komið hefur fram í mínum fyrri skrifum, sem og fréttum frá KSÍ, þá er þetta síðasti veturinn sem innanhússknattspyrnan er leikin með því sniði sem nú er (eftir breytingar 2004) og frá og með næsta vetri verður alþjóðlega útgáfan af innanhússknattspyrnu sem FIFA samþykkir, þ.e. Futsal, leikin í öllum flokkum hérlendis.

Ég hef nefnt í skrifum mínum á korkunum hér og í fyrri greininni um Futsal að þó nokkrar breytingar eru á reglunum frá núverandi innanhússknattspyrnu. Í raun má segja að um allt aðra íþrótt sé að ræða. Núna stendur yfir kynningarmót í Futsal á vegum KSÍ, sem hefur farið vel af stað, leikmönnum líkar vel við Futsal og áhorfendum finnst allt annað að horfa á innanhússknattspyrnuna með þessu sniði. Það er því óhætt að mæla með því að knattspyrnuáhugafólk skelli sér á einn leik í Futsal-mótinu og kynni sér málið, hver veit nema Futsal kveiki áhuga hjá fólki og stuðli að enn örari vexti íþróttarinnar hérlendis.
En aftur að þeim muni sem er á Futsal og íslensku innanhússknattspyrnunni.

Fyrst ber að nefna breytingu á leikvellinum og mörkunum. Í Futsal er leikið á handboltavöll með handboltamörk og er einnig notast við sama vítateig og í handboltanum. Tvö vítamerki eru á hvorum vallarhelmingi; sjálft vítamerkið er 6 metra frá marklínunni, staðsett á vítalínunni, og hitt vítamerkið (nefnt ytra vítamerkið) er staðsett 10 metra frá marklínu, fyrir miðju marki. Að auki er gerð krafa um miðjuhring með 3 metra radíus og hornboga í hverju horni með 25 cm radíus í alþjóðlegum leikjum, en þær merkingar eru ekki bráðnauðsynlegar til að leikur geti farið fram. Þá bætast við merkingar utan vallar, 5 metra frá hornbogunum utan við marklínuna og merkingar fyrir skiptisvæði leikmanna. Skiptisvæði leikmanna er 5 metra breytt svæði, staðsett 5 metra frá miðlínu og er beint fyrir framan varamannabekki liðanna. 10 metra breiða svæðið í miðjunni skal haldið hreinu og enginn standa á því svæði svo ritaraborðið hafi sem besta yfirsýn yfir leikvöllinn.
Þarna koma nokkrar breytingar, þar sem núna er leikið á mörk sem eru 2 metrar á hæð og 5 metrar á breidd, auk þess að reglugerðin fyrir innanhússknattspyrnu heimilar að hægt sé að stækka teiginn úr handbolta teig í 6* 15 metra teig, ef völlurinn er breikkaður.

Næsta breyting er umtalsverð, en það er breyting á boltanum sjálfum. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er leikið með þá boltastærð sem hver flokkur leikur með utanhúss að sumri til. En í Futsal leika allir flokkar (að minnsta kosti frá 5. flokki) með sömu stærð á bolta. Futsal-bolti er af stærð 4 og er sömu þyngdar og bolti af stærð 5, sem gerir það að verkum að boltinn skoppar um 30% minna en venjulegur fótbolti.
Með þessu móti verður Futsal-fótboltinn mun tæknilegri en íslenska útgáfan af innanhússknattspyrnu, auk þess að meira sést af skemmtilegum tilþrifum og miklu meira spil verður með boltann. Þetta hefur sannað sig í þeim leikjum sem búnir eru í kynningarmótinu í Futsal.

Eins og í núverandi innanhússknattspyrnu er hvort lið skipað 5 leikmönnum, þarf af einum markverði. Skiptingar fara fram á skiptisvæði leikmanna og eru skiptingarnar frjálsar, það er þær fara fram á meðan leikurinn er í gangi. Leiktíminn er aldrei stöðvaður fyrir skiptingu, ekki heldur hjá markverði og ber þjálfari liðsins ábyrgð á því að skipting fari rétt fram.
Ekkert breytist hins vegar hvað útbúnað leikmanna varðar, leikmenn verða að vera í skóm úr hentugu efni (sem strika ekki gólfið), legghlífar eru skylda, stuttbuxur, treyja og sokkar.

Breyting verður á hlutverkum dómaranna, þar sem þeirra starf er skilgreint líkt og utanhúss (er ekki gert í núverandi reglugerð um innanhússknattspyrnu að öðru leiti en að tveir dómarar skulu vera á leik og verði ósamræmi í dómum á milli þeirra, skal sá dómur sem lengra gengur standa). Núna telst annar dómarinn vera rétthærri en hinn og þegar ósætti ríkir á milli þeirra, ræður ákvörðun rétthærri dómarans (í leiknum) úrslitum um það atriði.
Dómararnir vinna núna eftir allri hliðarlínunni, sem táknar að þeir eru á meiri hlaupum en áður. Þá er varadómari á flestum leikjum (skylda á alþjóðlegum leikjum), en hann skráir niður það sem gerist í leiknum (mörk, spjöld og uppsafnanleg brot {sjá síðar}).

Stór breyting verður á leiktímanum, en samkvæmt núgildandi reglum spilar meistaraflokkur tvo 10 mínútna hálfleiki þar sem klukkan gengur allan tímann frá því leikur hefst í hvorum hálfleik.
Í Futsal leikur meistaraflokkur í tvisvar 20 mínútur og klukkan er stöðvuð í hvert sinn sem knötturinn er úr leik (ekki ósvipað og í körfubolta). Þetta þýðir að ef knötturinn fer útaf (hvort sem útaf á hliðarlínu eða endalínu) eða dómararnir dæma aukaspyrnu (beina eða óbeina) eða vítaspyrnu, þá er leiktíminn stöðvaður. Tíminn er ekki settur af stað aftur fyrr en knötturinn er kominn í leik (þ.e. hann hreyfist, hefur verið kastað beint út fyrir vítateig í markkasti).
Þá hefst leikur að nýju með upphafsspyrnu á miðju eftir að mark hefur verið skorað. Sú breyting verður á að það má skora úr upphafsspyrnu í Futsal, en það er ekki leyfilegt í núgildandi reglum.
Rennitæklingar eru bannaðar í Futsal, rétt eins og í núgildandi reglum. Hins vegar telst heimilt að renna sér á eftir knettinum til að halda honum inná leikvellinum, eða til að verja mark. Þó skal gæta þess að þessi renning (finn ekki skárra orð) virki ekki sem tilraun til að ná knettinum af mótherja. Þessi regla getur virkað eins og tvíeggjað sverð, það mun taka smá tíma fyrir bæði leikmenn og dómara að finna réttu línuna hvað þetta atriði varðar (reynslan kemur með tímanum).

Breyting verður á refsingum fyrir brottvísanir leikmanns. Í núgildandi reglum stendur að lið geti bætt leikmanni inn í stað þess leikmanns sem vísað var af velli þegar 3 mínútur eru liðnar frá brottvísuninni. Sá leikmaður sem fékk brottvísunina má að sjálfsögðu ekki taka frekari þátt í leiknum.
Í Futsal getur lið bætt leikmanni inn í stað þess sem vísað var af leikvelli þegar 2 mínútur eru liðnar af leiktímanum frá brottvísuninni (muna að klukkan er stöðvuð þegar knötturinn er úr leik), eða ef mótherjar liðsins skora áður en 2 mínútna refsitíminn er liðinn (ATH! lið getur ekki bætt við leikmanni ef það skorar sjálft þegar það hefur færri leikmenn en mótherjarnir).
Þó fylgja þessu nokkrir skilmálar. Ef bæði lið hafa misst leikmann af velli með rautt spjald og annað liðið skorar, má liðið sem fékk á sig markið ekki bæta við leikmanni, þar sem jafnt var í liðunum þegar markið var skorað. Sama gildir ef bæði lið eru skipuð 3 leikmönnum vegna brottvísanna. Sé lið einum leikmanni færri og fær á sig mark, má það bæta einum leikmanni við. Sé lið hins vegar tveimur leikmönnum færri og fær á sig mark, má það einungis bæta einum leikmanni við, en ekki tveimur. Til að jafna í liðunum þegar annað liðið missir tvo leikmenn, verða annað hvort 2 mínútur að líða frá hvorri brottvísun, eða mótherjar liðsins að skora 2 mörk áður en báðir refsitímar eru liðnir.

Futsal á að vera tæknileg íþrótt. Af þeim sökum gera reglurnar í Futsal ráð fyrir að harðar sé tekið á brotum heldur en núverandi reglur. Þar kemur inn nýtt atriði sem kallast uppsafnanleg leikbrot.
Til uppsafnaðra leikbrota teljast öll þau leikbrot sem refsað er fyrir með beinni aukaspyrnu, eða vítaspyrnu sé brotið innan vítateigs brotlega leikmannsins. Þannig teljast óbeinar aukaspyrnur (sem oftast eru dæmdar fyrir tæknileg brot, t.d. fjarlægð við innspark ekki virt) ekki til uppsafnanlegra leikbrota.
Uppsafnanleg leikbrot virka á þann hátt að í hvorum hálfleik hefur hvort lið um sig 5 tækifæri til þess að brjóta af sér, þannig að bein aukaspyrna sé dæmd. Í fyrstu 5 aukaspyrnunum má liðið sem brýtur af sér stilla upp varnarvegg og vera nær markinu en knötturinn. Við sjötta brot í hvorum hálfleik, og við hvert leikbrot eftir það í hvorum hálfleik, verður hins vegar breyting á. Liðið sem brotið er á fær þá aukaspyrnu af 10 metra færi sem virkar svipað og vítaspyrna. Spyrnandinn verður að vera auðkenndur og hann verður að skjóta á markið, en má ekki leika knettinum áfram í von um að samherji nái til boltans á undan mótherja (ólíkt í vítaspyrnu, þar má reyna slíkan leik).
Sé uppsafnað brot, sem leiðir til aukaspyrnu án varnarveggs, nær markinu en 10 metra vítamerkið en samt utan vítateigs, fær liðið sem brotið var á val um að taka aukaspyrnuna frá brotstað eða færa sig yfir á 10 metra vítamerkið.
Þessi regla verður til þess að lið reyna að halda leikbrotum í lágmarki og meira spil verður í leiknum. Dæmi eru um að lið hafi leikið leik án þess að brjóta af sér einu sinni svo varði uppsafnanlegt brot (bein aukaspyrna / vítaspyrna).

Ekki eru viðamiklar breytingar á framkvæmd aukaspyrna eða hornspyrna, en smávægileg breyting verður á framkvæmd innspyrna, þar sem núgildandi reglur segja að spyrnandi megi ekki fara lengra en 1 metra frá knettinum, en í Futsal er einungis miðað við 4 sekúndur frá því spyrnandi er tilbúinn að taka innspyrnuna á réttum stað.
Meiri kröfur eru þó gerðar til þess að knötturinn sé kyrrstæður á línunni í innspyrnum og hornspyrnum en áður, enda auðveldara að stöðva Futsal-knöttinn en venjulegan fótbolta innanhúss.

Talsverð breyting verður á reglunni um markverði. Eins og stendur í núgildandi reglum hefur markvörður 4 sekúndur til að losa sig við knöttinn ef hann fær hann í hendurnar (útkast ef hann grípur knöttinn í leik, t.d. eftir að hafa varið skot, eða markkast eftir að knötturinn hefur farið aftur fyrir endalínu en ekki inn í markið).
Í núgildandi reglum stendur að eftir að markvörður losar sig við knöttinn úr höndunum, hvort sem er í útkasti (knöttur í leik) eða markkasti (knöttur úr leik) verði knötturinn að fara yfir miðju eða snerta mótherja áður en markvörðurinn má snerta knöttinn aftur. Snerti markvörður knöttinn aftur eftir að hafa kastað honum frá sér og knötturinn ekki farið yfir miðju eða í mótherja, er dæmd á hann óbein aukaspyrna á þeim stað sem hann snertir knöttinn, með þeirri undantekningu að ef snertingin verður innan vítateigs markvarðarins er spyrnan tekin af vítateigslínunni næst staðnum sem snertingin átti sér stað.
Sömu viðurlög gilda í Futsalinu hvað varðar brot á þessari grein, til að forða mér frá því að endurtaka romsuna.
Hins vegar verður sú breyting á að knötturinn verður að fara yfir miðju eða snerta mótherja í hvert sinn sem markvörður sendir frá sér knöttinn, hvort sem er með höndum eða fótum. Þar að auki bætist við að markvörðu má ekki vera með knöttinn (hafa vald á knettinum) lengur en í 4 sekúndur á sínum vallarhelmingi, annars dæmist á hann óbein aukaspyrna. Markvörðurinn er þar með minna inn í spilinu en áður. Markvörðurinn má hins vegar leika knettinum af vild og hafa vald á knettinum eins lengi og hann vill á vallarhelmingi mótherjanna (verður þannig meiri þátttakandi í leiknum). Þegar markvörður spilar svona framarlega á vellinum er hans vallarhelmingur oftast leikmannalaus, snjallir markmenn notfæra sér þetta samt merkilega oft án þess að það komi þeim í koll.

Þá hef ég lokið við að telja upp helstu breytingarnar sem verða á milli núgildandi reglna í innanhússknattspyrnu og Futsal-reglnanna. Ég mun reyna eftir bestu getu að svara þeim spurningum sem kunna að vakna, en hafið það að leiðarljósi að þessi íþrótt er ný hérlendis og ekki komin reynsla í henni ennþá og má fastlega búast við því að skilningurinn á leikreglunum muni halda áfram að aukast á næstu árum.
Möguleikarnir eru miklir í Futsal og framtíðin er björt. Ég vona að áhuginn á Futsal muni aukast ár frá ári og að innan tíðar muni Ísland tefla fram landsliði í Futsal sem tæki þátt í undankeppnum EM og HM í framtíðinni og kæmist vonandi á stórmót.

Með von um góðar viðtökur og bjartsýni knattspyrnuáhugamanna á Huga.
Snilli23



Myndin er fengin af vef knattspyrnudeildar UMF Njarðvík; http://fotboltinn.umfn.is/
Hér er beinn tengill á myndina
Kveðja,