
Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður Íslandsmeistara ÍA, skrifaði í gær undir tveggja ára samning við félagið. Ólafur hefur leikið með liðinu undanfarin þrjú tímabil, en hann hafði fram að þeim tíma leikið með ÍR. Ólafur, sem er 24 ára gamall, var kosinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins árið 1998. Ólafur átti stóran þátt í velgengni liðsins í sumar og spilaði sitt besta tímabil til þessa. Talað var um að hann væri að flytja erlendis ásamt kærustu sinni en þau eru greinilega búin að fresta því.
Birkir Kristinsson markvörður er ekki dauður úr öllum æðum. Hann hefur ákveðið að leika áfram með ÍBV í úrvalsdeildinni í knattspyrnu næstu tvö árin. Birkir hefur tekið tilboði Eyjamanna og skrifar undir nýjan samning á næstunni. Birkir er nú staddur í Stoke. Hann fór til félagsins í síðustu viku til að taka út rekstur félagsins en þar sem markvörður liðsins varð fyrir meiðslum óskaði Guðjón Þórðarson eftir því að fá Birki lánaðan til að fylla skarð varamarkvarðarins.
Hajrudin Cardaklija, markvörður Sindra, hefur verið endurráðinn þjálfari liðsins sem vann sér sæti í 1. deild í haust. Cardaklija var gríðaröflugur í marki Sindramanna í sumar og sterk vörn liðsins gerði það að verkum að liðið komst upp.