Danskur skúnkur (af Boltinn.is) Mikið hefur verið rætt um stórtap Íslendinga fyrir Dönum hér á Huga. Mikið af greinum hefur borist og hef ég þurft að hafna þeim flestum. Ég rakst á ansi skemmtilega grein á boltinn.is um leikinn sem nefnist “Danskur skúnkur”. Látum hana vera síðustu greinina sem birtist hér á Huga um þennan ömurlega leik, við skulum bara reyna að gleyma þessum hörmungum!

Danskur skúnkur (af www.boltinn.is)
Það var engu líkara en Íslendingar væru enn að vefja jónur í Kristjaníu í leiknum á Parken í dag. Liðið gat bókstaflega ekki neitt og Danir fengu úr nógu að moða. Pressan hófst strax á fyrstu mínútu og íslensku leikmennirnir veittu hreinlega enga mótspyrnu, miðjan handónýt og vörnin getulaus. Dennis Rommedahl skoraði á 12. mínútu og Ebbe Sand bætti við þremur mínútum síðar. Lárus Orri gerði síðan hroðaleg varnarmistök og Thomas Gravesen gerði þriðja markið á 29. mínútu. Gravesen skoraði síðan glæsilegt mark eftir aukspyrnu á 35. mínútu og staðan var 4-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik var sama ömurðin uppi á teningnum. Ebbe Sand bætti fimmta markinu við á 66. mínútu og Jan Michaelsen gerði síðasta markið á 89. mínútu. Brandarinn fullkominn.

Það er grátlegt að horfa upp á íslenska landsliðið þessa dagana. Eftir sneypuna í Belfast sagði formaðurinn að við ættum bara að gleyma ömurðinni og fara að hugsa um Danaleikinn. Svo kemur íslenski þjálfarinn fram í fjölmiðlum á leikdegi og segist ætla að vinna Dani. Er þetta grín? Er þetta hin nýja Spaugstofa? Eflaust á formaður KSÍ eftir að segja okkur að við eigum bara að gleyma þessu sem fyrst, þetta skipti jú engu máli og að við séum á réttri braut, hér sé verið að vinna gríðarlega gott starf og lið Dana sé svo sterkt að þetta sé bara eðlileg útreið. Hvern eru menn að reyna að blekkja? Ætli landsliðsmönnum okkar líði vel eftir að hafa spilað eins og útúrskakkar kerlingar? Voru mennirnir kannski á dönskum ofurskúnki? Þetta er einum of ömurlegt og á ekki að líðast. Burt með landsliðsþjálfarann! Við viljum ekki sjá slíka sneypu. Það er lag núna til að moka út skítnum. Eðlilegt fólk mokar út úr fjósinu sínu áður en allt fyllist. Ef það verður ekki gert verðum við hins vegar að reyna að redda okkur dönskum skúnki og fara bara öll í feitan fílíng.