Danmörk - Ísland á morgun Íslendingar leika gegn Dönum á Parken á morgun. Tveggja ára samningur Atla Eðvaldssonar rennur út eftir leikinn og bendir allt til þess að Atli muni stjórna landsliðinu áfram. Atli tók við landsliðinu af Guðjóni Þórðarsyni 1999 og er líklegt að hann verði áfram við stjórnvölinn í undankeppni Evrópukeppni landsliða. Rúnar Kristinsson er kominn aftur í hópinn eftir meiðsli og er það ekkert nema jákvætt fyrir íslenska liðið. Ef Atli Eðvaldsson notar Rúnar í leiknum verður það 92. landsleikur hans og þar með heldur hann áfram að bæta landsleikjametið. Danir hafa skorað flest mörk í riðlunum, 16, og það kemur því í hlut Eyjólfs Sverrisonar að binda íslensku vörnina saman og halda aftur af dönsku sóknarmönnunum. Leikurinn skiptir engu máli fyrir Ísland en Danir verða að vinna til að komast á HM. Leikurinn á morgun verður í beinni útsendingu á Sýn og hefst útsending kl.17:45.

Ungmennalandsliðið leikur við jafnaldra sína frá Danmörku kl.17:00 í dag. Leikið er um þriðja sætið í riðlinum. Danir hafa 12 stig í þriðja sæti og nægir jafntefli til að halda því en Íslendingar, sem hafa hlotið 11 stig, geta með sigri skotist upp fyrir frændur okkar. Vitað er af njósnurum frá Rosenborg og Ipswich sem ætla að fylgjast með Framaranum Eggerti Stefánssyni sem lenti í öðru sæti í X-2001 hér á Huga yfir efnilegustu leikmenn Símadeildarinnar. Eggert spilaði frábærlega fyrir Fram í sumar og var gríðarlega traustur í vörninni. Ég hef líka heyrt það að njósnarar frá Norskum liðum ætli að kíkja á Orra Hjaltalín hjá Þór en hann verður í fremstu víglínu í dag hjá U21-landsliðinu.