Þjálfaramálin Nú þegar leik er lokið í Íslenska boltanum í bili eru nokkrir þjálfarar að hugsa um framtíð sína. Ég ákvað að kíkja á nokkrar athyglisverðar breytingar á þjálfurum.

Valsmenn gerðu i gær þriggja ára samning við Þorlák Árnason. Lukku Láki eins og hann er stundum kallaður hefur undanfarin þrjú ár verið unglingaþjálfari hjá Skagamönnum með góðum árangri og þar áður var hann unglingaþjálfari hjá Val þar sem hann náði einnig góðum árangri. Þorlákur fær það erfiða verkefni að rífa lið Vals upp í efstu deild á ný.

Logi Ólafsson, sem undanfarin tvö ár hefur þjálfað FH, er orðinn aðstoðarþjálfari hjá norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström. Logi tekur formlega til starfa 1. desember. Hann mun þó verða Arne Erlandsen þjálfara innan handar það sem eftir er þessa tímabils.

Jörundur Áki Sveinsson sér um þjálfun Breiðabliks næstu þrjú árin. Sigurður Grétarsson hefur látið af störfum sem þjálfari liðsins.
Jörundur Áki þekkir vel til hjá félaginu þar sem hann hefur þjálfað meistaraflokk kvenna síðustu 4 árin og vann liðið 8 titla undir hans stjórn þessi ár. Jörundur er einnig landsliðsþjálfari kvenna.

Tekið af gras.is og breidablik.is