SKAGAMENN ÍSLANDSMEISTARAR 2001 Skagamenn urðu í dag Íslandsmeistarar í knattspyrnu eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Eyjamenn, í æsispennandi úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Skagamenn komu grimmir til leiks og strax á 7. mínútu skoraði Kári Stein Reynisson fyrsta mark leiksins eftir skot frá Grétari Rafni Steinssyni. Og á 17. mínútu kom Sigurður Sigursteinsson þeim í 2-0 og allt stefndi í öruggan sigur Skagamanna. En Tómas Ingi Tómasson minnkaði muninn á 24. mínútu og var staðan 2-1 í hálfleik. Mikil barátta og grimmd einkenndi leikinn og gaf hvorugt liðið eftir. Eyjamenn þurftu að minnsta kosti að skora tvö mörk í síðari hálfleik til að vinna titilinn. Á 59. mínútu skoraði svo Tómas Ingi Tómasson aftur og voru Eyjamenn komnir aftur inn í leikinn. Síðustu mínúturnar voru það Eyjamenn sem sóttu nánast stanslaust og mátti Ólafur Þór Gunnarsson markmaður Skagamanna hafa sig allan við til að verja. En örvænting var meðal Eyjamanna og voru þeir full bráðir undir lokin, og náðu ekki að skora. Því urðu Skagamenn Íslandsmeistarar, með 36 stig, jafnmörg og ÍBV en ÍA var með betra markahlutfall.
Þetta var fyrsti Íslandsmeistara titill Skagamanna síðan 1996, en þá höfðu þeir unnið 5 sinnum í röð. Stórkostlegur árangur hjá Ólafi Þórðarsyni, en liðinu var spáð fimmta sæti í byrjun sumars.
Hjörtur Hjartarson, sóknarmaður Skagamanna, varð einnig markakóngur deildarinnar með 15 mörk.

TIL HAMINGJU SKAGAMENN!

Lokastaðan:

1. ÍA 18 11 3 4 29:16 36
2. ÍBV 18 11 3 4 23:15 36
3. FH 18 9 5 4 23:16 32
4. Grindavík 18 9 0 9 27:29 27
5. Fylkir 18 7 4 7 26:23 25
6. Keflavík 18 6 5 7 27:30 23
7. KR 18 6 4 8 16:20 22
8. Fram 18 6 2 10 28:28 20
9. Valur 18 5 4 9 19:26 19
10. Breiðablik 18 4 2 12 17:32 14