Netmiðlar hafa verið að greina frá því að hið lánlausa lið Lazio (amk það sem af er hausti) sé að skoða mögulega arftaka Dino Zoff í þjálfarastólnum. Alberto Zaccheroni hefur oft verið nefndur (þá fyrst fer nú allt í handaskolum - maðurinn kann ekki að stýra stórliði!) en nú heyrist að Cragnotti&co séu að spá í Gerald Houllier, hinn farsæla stjóra Liverpool. Og það sem meira er, Robbie Fowler mun líka vera í athugun hjá hinum himinbláa Rómarklúbbi, ekki síst með hliðsjón af því að Fowler er ekki að fá þau tækifæri sem hann vill á Anfield. Ljóst að Houllier kýs Owen+Heskey í framlínunni. Liverpool neitar öllum sögusögnum (auðvitað!) en hefur samt gefið út “burt með krumlurnar”-viðvörun.
Maður tekur þessu nú með fyrirvara eins og öðrum “óstaðfestum fréttum”, auk þess sem enskir leikmenn hafa alltaf verið einstaklega ragir við að spreyta sig í Serie A (Ian Rush hjá Juve, Ince og R. Keane hjá Inter, Gazza hjá Lazio…man einhver eftir fleirum í svipinn?!) þannig að Fowler-til-Lazio hljómar ekkert sérstaklega sennilegt. Hitt er annað mál að breytingin gerði honum sjálfsagt bara gott.