Skagamenn aftur á sigurbraut Skagamenn sigruðu Fylkismenn uppá Skaga í kvöld 3-0. Leiknum var frestað í gær vegna gríðalegs roks og rigningar. Það var þó nokkuð hvasst en meðvindurinn var með Skagamönnum í fyrri hálfleik.
Leikurinn byrjaði eins og í gær, er Kári Steinn Reynisson skoraði fyrsta mark leiksins á 33. mínútu, en hann skoraði einmitt mark Skagamanna í gær áður en hann var flautaður af. Undir loks fyrri hálfleiks braut Kristinn Tómasson á Hjálmi Dóri Hjálmssyni og fékk hann að líta gula spjaldið fyrir það, en skömmu síðar það rauða fyrir mótmæli. Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir ÍA og voru þeir einum fleiri það sem eftir var, og áttu Fylkismenn lítil sem engin færi í hálfleiknum. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik skoraði Hjörtur Hjartarson annað mark ÍA eftir sendingu frá Kára Steini. Skagamenn voru með yfirhöndina nánast allan leikinn og spiluðu vel þrátt fyrir mikinn mótvind í seinni hálfleik. Hjörtur gulltryggði svo sigurinn fyrir Skagamenn á lokamínútunni með öðru marki sínu í leiknum eftir skot frá Unnari Valgeirssyni og er hann því búinn að skora 15 mörk í sumar og lang markhæstur í deildinni og blasir markakóngstitillinn við honum. Allt annað var að sjá leik Skagamanna eftir ófarirnar í Grindavík. Og eru þá Skagamenn komnir aftur á toppinn ásamt Eyjamönnum en ÍA er með betri markatölu, 13 mörk í plús en ÍBV er með 8 mörk í plús. Lokaslagurinn fer því fram í Eyjum um næstu helgi þegar ÍBV og ÍA mætast, og þar verður ljóst hverjir hampa Íslandsmeistaratitlinum, Skagamenn standa heldur betur að vígi því þeim dugir jafntefli.
ÍA og Fylkir mætast svo aftur uppá Skaga á miðvikudaginn í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins.