Fylkir tapaði fyrir Roda Fyrsta tap Fylkis í Evrópukeppni varð í gær í Hollandi þegar leikmenn Roda lögðu Árbæinga 3-0. Kjartan Sturluson markvörður átti ekki góðan leik og gerði tvö afdrifarík mistök. 200 íslenskir áhorfendur fylgdu Fylkisliðinu og þeir urðu vitni að góðri sókn Steingríms Jóhannessonar á 4.mínútu. Litlu munaði að Steingrímur næði að skora. Roda stjórnaði leiknum en fékk þó engin færi af viti fyrr en þeir skoruðu fyrsta markið á 27. mínútu. Eftir hornspyrnu missti Kjartan af knettinum sem datt beint fyrir framan fæturna á Dananum Marc Nygaard og hann skoraði örugglega af stuttu færi. Ólafur Stígsson átti eina markskot Fylkis á 50.mínútu, reyndar langt yfir. Aðeins þremur mínútum síðar slapp Sævar Þór einn í gegnum vörn Roda en missteig sig og datt. Stundarfjórðungi síðar kom afar slæmur kafli Árbæinga. Yannis Anastasiou nýtti sér hann vel og skoraði tvö mörk. Fyrst ætlaði Kjartan að hirða upp knöttinn af tám Anastasiou eftir fyrirgjöf en hélt ekki boltanum og hann náði að skora af stuttu færi. Fimm mínútum síðar gaf Garba Lawal frábæra sendingu inn fyrir vörn Fylkis og fann fyrir Anastasiou sem skoraði með skoti af miklu öryggi í fjærhornið.

Slökustu menn Fylkis voru Kjartan Sturluson og Hreiðar Bjarnason.
Fylkir á ekki mikla möguleika á að komast áfram í Evrópukeppninni. Liðin leika síðari leikinn heima þann 26. september. Þrátt fyrir frekar slakan leik Fylkismanna þá var stemmingin meðal áhorfenda góð. Eins og áður sagði þá fylgdu 200 stuðningsmenn liðinu til Hollands. Aðeins tveir fylgdu liðinu til Vestmannaeyja um daginn og var ástæðan víst sú að dýrara er að fljúga til Eyja!