Fylkismenn eru komnir áfram í Evrópukeppninni Fylkismenn halda uppi nafni Íslands í Evrópukeppninni eftir að hafa slegið lið Pogon frá Póllandi út úr keppninni í dag. Pétur Björn Jónsson var hetja Árbæinga eftir að hafa jafnað leikinn á 89.mínútu. Heimamenn komust yfir strax á 6.mínútu og voru allan tímann líklegri til að bæta við en Fylkismenn að jafna. Með þessi úrslit hefðu Pogon-menn komist áfram. Bjarni Jóhannsson gerði tvær breytingar á liði sínu í síðari hálfleik, skipti þeim Steingrími og Errol útaf fyrir Theódór Óskarsson og Pétur Björn Jónsson. Pétur þakkaði Bjarna traustið og tryggði Fylki áframhaldandi þátttöku í keppninni. . „Pólska liðið var mun betra en Fylkir en með þrautsegju og þolinmæði, sem er dyggð, þá hafðist þetta þrátt fyrir að við fengjum á okkur gjafamark í upphafi leiks," sagði Bjarni í viðtali við mbl.is.

Kjartan Sturluson átti stórleik í marki Fylkis, og varði víst alveg eins og berserkur samkvæmt www.gras.is. Rúmlega 200 stuðningsmenn Fylkis fylgdu liðinu til Póllands. Mikill fögnuður braust út milli þeirra þegar Pétur Björn skoraði og þögn sló á 10.000 heimamenn. Það var Pétur Björn Jónsson sem skoraði þetta mikilvæga mark. Fylkir fékk óbeina aukaspyrnu eftir að markvörðurinn hafði gripið skot frá samherja. Aukaspyrnan lenti í varnarvegg Pólverja og síðan aftur fyrir endamörk þannig að hornspyrna var dæmd. Eftir hornspyrnuna myndaðist mikil þvaga í markteignum sem endaði með því að Pétur Björn náði að reka tána í boltann. Það kemur í ljós á morgun hverjir næstu andstæðingar Fylkis í keppninni verða.