FH fékk þrjú stig á Hlíðarenda FH er áfram í hópi efstu liða eftir sigur á Val í gær. Daði Lárusson, markvörður FH, þurfti að taka á honum stóra sínum strax á fyrstu mínútunni þegar Ármann Björnsson fékk mjög gott færi.
Heimamenn voru líklegri í fyrri hálfleik, Matthías Guðmundsson var hættulegur þegar hann tók rispur upp hægri kantinn. Valsmenn fengu nokkur ágæt færi á þeim kafla en það besta átti þó fyrirliðinn sjálfur, Kristinn Lárusson. Hörður Magnússon var lítið áberandi sem framherji liðsins. Á 41. mínútu stakk Jón Þorgrímur Stefánsson sér í gegnum vörn Vals og skoraði fyrsta mark leiksins. Aðeins mínútu síðar jafnaði Kristinn Lárusson fyrir Val við mikinn fögnuð heimamanna.

Valsmenn hafa ekki náð að sigra í síðustu fjórum leikjum liðsins. Á lokakaflanum í gær náðu Valsmenn að skapa sér fjölmörg færi og áttu m.a. skalla í stöng sem rúllaði síðan eftir marklínunni. Valsmenn vildu meina að boltinn hafi farið inn en Gylfi dómari gerði ekkert. Innkoma Baldurs Bett og Davíðs Ólafssonar í síðari hálfleik breytti miklu í leik liðsins. Sá síðarnefndi sýndi oft á tíðum skemmtilega takta og átti m.a. þrumuskot í þverslá á 62. mínútu. Fjórum mínútum síðar kom svo sigurmarkið sem Jónas Grani skoraði. Zoran Stosic var ekki nógu snöggur í Valsvörninni og FH vann 1-2 á Hlíðarenda.

Valur - FH 1-2
0-1 Jón Þ. (41)
1-1 Kristinn Lárusson (42)
1-2 Jónas Grani Garðarsson (66)



MARKAHÆSTU MENN
13 - Hjörtur Hjartarson (ÍA)
8 - Ásmundur Arnarsson (Fram)
6 - Grétar Ó. Hjartarson (Grindavík)
6 - Guðmundur Steinarsson (Keflavík)
6 - Kristján Brooks (Breiðablik)
6 - Sævar Þór Gíslason (Fylkir)
6 - Þórarinn B. Kristjánsson (Keflavík)
5 - Grétar Rafn Steinsson (ÍA)
5 - Sinisa Kekic (Grindavík)
5 - Sverrir Sverrisson (Fylkir)