Það bendir allt til þess að Inter Milan hafi dottið í lukkupottinn þegar þeir fengu til liðs við sig hinn 19 ára brassa, Adriano. Hann kom til Inter frá Flamengo í Brasilíu í skiptum fyrir Vampeta og til að byrja með stóð til að hann yrði fyrst um sinn í láni hjá Venezia eða Perugia enda lítið um laus pláss í stjörnum prýddu liði Internazionale. En frammistaða Adriano á undirbúningstímabilinu hefur heldur betur breytt því og nú hefur Masimo Moratti lýst því yfir að pilturinn fari hvergi heldur spili eingöngu fyrir Inter. Í leik við Real Madrid um hinn svonefnda Bernabeu-bikar negldi pilturinn inn aukaspyrnu sem skildi viðstadda eftir mállausa. Þess má geta að boltinn mældist á 170 km/klst hraða - má bjóða ykkur að standa í veggnum…? Spyrnan var greinilega mögnuð því fáum mínútum eftir leikslok fékk Adriano hringingu frá landa sínum og liðsfélaga, Ronaldo, sem spurði hann hreint út; “hvernig fórstu að því að ná svona góðu skoti?!” Þetta kemur Inter sér einstaklega vel því minni pressa er á Ronaldo að spila strax aftur. Þessi leikmaður verður “one to watch” í ítalska boltanum í vetur. Leggið nafnið ADRIANO á minnið.