Fylkismenn á niðurleið Skagamenn náðu góðri forystu í Símadeildinni eftir sigur á Blikum á Kópavogsvelli í gær 2-3. Það verður ótrúlegt ef markamaskínan Hjörtur Hjartarson verður ekki markahæstur í sumar því hann hefur farið á kostum í leikjum ÍA og það var engin breyting á því í gær þegar hann skoraði þrennu. Hann er nú kominn með 13 mörk í ár. Hjörtur skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu og annað kom fyrir hálfleik. Skagamenn misstu svo Húsvíkinginn Baldur Aðalsteinsson að velli um miðjan síðari hálfleik þegar hann fékk rautt spjald og við það vöknuðu Blikar og náðu að jafna. Hörður Bjarnason og Kristján Óli Sigurðsson skoruðu fyrir heimamenn á síðustu tíu mínútum leiksins. Hjörtur skoraði svo sigurmark leiksins tveim mínútum fyrir leikslok og hver veit nema bikarinn fari upp á Skaga í ár.

Eyjamenn eru með í meistarabaráttunni og þeir komust í annað sæti deidarinnar eftir öruggan 3-0 sigur á Grindavík á heimavelli. Hinn ungi og efnilegi Atli Jóhannsson kom þeim yfir á 11.mínútu og Alexander Ilic skoraði átta mínútum síðar. Sögusagnir voru í gangi um að forráðamenn ÍBV ætluðu að senda Ilic heim þar sem hann hefur ekki staðið undir væntingum í ár ef undirbúningstímabilið er undantekið en þar stóð hann sig mjög vel. Tómas Ingi Tómasson er kominn með skegg og kannski að það færi honum einhveja heppni. Allavega tryggði hann ÍBV 3-0 sigur.

“Það er ekki hægt að tala um lánleysi lengur, þetta er bara aumingjaskapur í okkur” sagði Gummi Ben í viðtali við Sýn eftir 1-3 tapleik í Keflavík. Ekkert lát er á slæmu gengi Íslandsmeistarana KR og eplið sem þeir bitu í í gær var mjög súrt. að tapa fyrir Keflvíkingum suður með sjó, 3-1. Þórarinn Kristjánsson og Guðmundur Steinarsson skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Mark Guðmundar var það glæsilegasta sem sést hefur í sumar. Skot beint úr aukaspyrnu af 35-40 metra færi í samskeytin og inn. Keflavík með 2-0 forystu í hálfleik og ég hefði viljað heyra ræðuna sem David Winnie flutti fyrir KR-inga í hálfleik. Andy Roddie lagaði stöðuna fyrir Vesturbæinga á 62.mínútu þegar hann fylgdi eftir lélegri vítaspyrnu Gumma Ben sem Gunnleifur varði. Kristján varði líka víti í leiknum en það skipti ekki máli því Þórarinn skoraði annað mark sitt í leiknum og tryggði Keflavík 3-1 sigur. KR-ingar eru í slæmum málum.

Það er gaman að vera Framari þessa dagana. Liðið er sjóðheitt um þessar mundir og unnu fjórða leik sinn í röð í gær. Fylkismenn voru heillum horfnir og var þetta annar tapleikur þeirra í röð. Fjölmargir áhorfendur mættu á Laugardalsvöllinn í gær og var gríðarleg stemming. Framarar eru fimm stigum frá fallsæti eftir 3-0 sigur. Baldur Knútsson skoraði fyrsta mark leiksins með stórglæsilegu skoti af löngu færi sem hafði viðkomu í varnarmanni Fylkis og fór inn. Húsvíkingurinn Ásmundur Arnarsson bætti við marki með skalla. Pjakkurinn Ólafur Ingi Skúlason hjá Fylki fékk svo rautt spjald þegar hann rak Frey Karlssyni olnbogaskot. Framarar voru betri aðilinn í leiknum og Fylkismenn aldrei líklegir til að setja mörk. Þorbjörn Atli Sveinsson innsiglaði sigurinn á 67.mínútu. Eftir leikinn fóru nokkrir Framarar til Bandaríkjanna í nám og eru það þeir Gunnar Sveinn, Baldur Knútsson og Haukur Snær sem spila ekki meira með í sumar. Leikmenn Fram tileinkuðu Steinari Guðgeirssyni stjórnarformanni sigurleikinn gegn Fylki, en Steinar átti þrítugsafmæli. Allir sem einn sungu þeir hástöfum afmælissönginn inni í búningsklefa í leikslok. Haft var á orði að ekki einn einasti leikmaður Fram virtist vera falskur!

Breiðablik - ÍA 2-3
0-1 Hjörtur Hjartarsson(v) 24. mín
0-2 Hjörtur Hjartarsson 37. mín
1-2 Hörður Bjarnason 80. mín
2-2 Kristján Óli Sigurðsson 85. mín
2-3 Hjörtur Hjartarsson 88. mín.

Keflavík - KR 3-1
1-0 Þórarinn Kristjánsson 22. mín
2-0 Guðmundur Steinarsson 28. mín
2-1 Andy Roodie 62. mín
3-1 Þórarinn Kristjánsson 80. mín

ÍBV - Grindavík 3-0
1-0 Atli Jóhannsson 11. mín
2-0 Alexander Ilic 19. mín
3-0 Tómas Ingi Tómasson 72. mín

Fram - Fylkir 3-0
1-0 Baldur Knútsson (12)
2-0 Ásmundur Arnarsson (25)
3-0 Þorbjörn Atli (67)