Jæja, góðir hálsar. Hér kemur smá slatti af nýjum og nýlegum fréttum og sögusögnum.

MARIO JARDEL ENDAR HJÁ MÓNAKÓ

Sagan endalausa af brottför Mario Jardel frá Galatasaray virðist loks vera að nálgast síðustu kaflana. Eftir að hafa verið orðaður við AC Milan, Inter Milan, Juventus, Marseille, Porto og Bayern München (er ég að gleyma einhverjum…?) þá virðist nú næsta öruggt að hann gangi til liðs við AS Mónakó.

Galatasaray hafa þurft að horfa upp á markaðsvirði Jardels hrapa undanfarnar vikur og sögur segja að fyrir hann fá þeir ekki nema 5.5 millj. punda plús leikmennina Nicolas Bonnal og Wagneau Eloi.


DESAILLY TIL AS ROMA ???

Varnarjaxlinn sterki hjá Chelsea, Marcel Desailly, hefur gefið það í skyn á vefsíðu sinni að hann sé í þann mund að snúa aftur til Ítalíu og ganga til liðs við núverandi meistara, Roma. Desailly segir þjálfara Roma, Fabio Capello, vera andlegan föður sinn en þeir unnu marga stórdolluna saman hjá AC Milan. Skemmtilegt sjokk fyrir Chelsea áhangendur - tæp vika í að deildin hefjist!


FOWLER TIL ÍTALÍU???

Sá orðrómur tröllríður nú Bítlaborginni að Robbie Fowler sé á förum frá Liverpool og þá til Inter Milan eða Juventus. Sem kunnugt er eru þessi lið að leita að sóknarmanni. Tvennt kemur til; Fowler var ekki í liðinu sem vann Góðgerðarskjöldinn, þar sem Gerard Houllier virðist hrifnari af framherjaparinu Owen-Heskey. Svo er hitt að Houllier var að versla sér tékkneskan striker, hinn 19 ára Milan Baros og það sendir ákveðin skilaboð…


BECKHAM OG POSH TIL MILAN ???

Það logar allt í getgátum á Ítalíu hvort David Beckham muni ganga til liðs við AC Milan sumarið 2002. Hann hefur ekki ennþá skrifað undir nýjan samning við ManUtd, og þeim skötuhjúum myndi ekki leiðast að búa í hátískuborginni Mílanó, þar sem ekki er hægt að kasta grjóti án þess að brjóta rúðu hjá Prada, Gucci eða Dolce&Gabbana. Auk þess hefur Silvio Berlusconi lofað að láta Victoriu fá sinn eigin sjónvarpsþátt…um tísku, hvað annað!!!


JUVE VILJA CRESPO

Glóðvolg saga frá Tórínó segir að Juventus séu að undirbúa surprise-tilboð í Hernan Crespo; 28 milljónir punda plús David Trezeguet. Hættir við Marcelo Salas ?! Ja, Crespo er náttlega miiiklu betri striker, en hví ættu Lazio að láta hann fara ?!

Fylgjumst spenntir með og ég bæti fleiru við er ég frétti eitthvað.