Fréttir dagsins (Atli Viðar illa meiddur o.fl) ATLI VIÐAR ÚR LEIK Í SUMAR?
Hinn bráðefnilegi sóknarmaður úr FH, Atli Viðar Björnsson, meiddist illa í leik gegn ÍBV á dögunum og nú hefur komið í ljós að krossbönd í hné hafa skaddast. Líkur eru á því að Atli leiki ekki meira með FH á þessu tímabili en þó er ekkert hægt að bóka fyrr en í næstu viku þegar það á að liggja ljóst fyrir hversu alvarleg meiðslin eru. Er þetta áfall fyrir FH en Atli hefur verið að spila vel fyrir þá og sett nokkur mörkin. Nokkuð líklegt er að Hörður Magnússon muni leysa Atla af hólmi.



ATLI EÐVALDS FER TIL NOREGS
Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari, heldur til Noregs síðar í þessum mánuði þar sem hann mun fylgjast með nokkrum íslensku leikmönnum. Atli ætlar að sjá Lyn og Stabæk í norsku úrvalsdeildinni 19.Ágúst, en með liðunum leika fimm Íslendingar. Jóhann B. Guðmundsson og Helgi Sigurðsson með Lyn og þeir Tryggvi Guðmundsson, Pétur Hafliði Marteinsson og Marel J. Baldvinsson með Stabæk. Norska pressan sagði það á dögunum að Íslendingar hlytu að eiga ansi magnaða leikmenn fyrst þeir hafa ekki not fyrir Jóhann í landsliðinu. Jóhann hefur spilað mjög vel fyrir Lyn í sumar en hann var keyptur þangað frá Keflavík. Lyn hafa sýnt áhuga á öðrum Keflvíkingi, Hauki Inga Guðnasyni. Atli er líka búinn að ákveða að heimsækja Eyjólf Sverrisson, hjá Herthu í Þýskalandi. Hann ætlar víst ekki að skoða Guðna Bergsson hjá Bolton sem er orðinn of gamall fyrir landsliðið. Samt er hann að mínu mati betri en margir aðrir leikmenn íslenska landsliðsins.



BLIKAR BJÓÐA FRÍTT Á VÖLLINN!
Í kvöld lýkur 12. umferð Símadeildarinnar með 3 leikjum. KR-FH verður í beinni á Sýn, Keflavík og ÍA mætast í Keflavík og í Kópavogi mætast Breiðablik og Grindavík og hefur knattspyrnudeild Breiðabliks sent boðsmiða á leikinn á öll heimili í Kópavogi til að rífa upp áhorfendafjöldann og ná upp Blikastemningu en liðið er í bullandi fallhættu í neðsta sæti deildarinnar.