Fylkir mætir ÍA í undanúrslitum bikarsins Errol Edderson Mcfarlane og Kristinn Tómasson voru í framlínu Fylkis í Grindavík í gær. Fá færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik en í þeim síðari var allt annað upp á teningnum. Á 52. mínútu komust Fylkir yfir með skallamarki Ólafs Stígssonar en markið má að mörgu leyti skrifa á Albert í marki Grindavíkur. Tveimur mínútum síðar gerðu gestirnir slæm mistök í vörninni og það var Óli Stefán Flóventsson sem jafnaði metin með glæsilegu skallamarki. Kjartan í marki Fylkis átti stórleik og bjargaði oft á tíðum með tilþrifum, m.a. tveimur þrumuskotum frá Scott Ramsey. Besti maður Grindavíkur að mínu mati, Sinisa Kekic, þurfti að fara útaf meiddur og varð leikur liðsins slappari fyrir vikið. Framlengja þurfti leikinn og þar voru Fylkismenn sterkari. Gunnar Þór Pétursson skaut í varnarmann og inn í mark heimamanna á 98. mínútu. Varamaðurinn Steingrímur Jóhannesson innsiglaði svo sigur Árbæjarliðsins 1-3 og þeir komnir áfram í bikarnum.

Í hádeginu í dag var dregið í undanúrslit Coca Cola bikarsins Í Blómasal Hótel Sögu. ÍA fær Fylki og lið KA fer í Hafnarfjörðinn. KA-menn fengu góðan liðsstyrk í dag þegar Ívar Bjarklind ákvað að taka fótboltaskóna af hillunni (ekki í fyrsta sinn!) og ganga til liðs við sitt gamla félag. Undanúrslita-leikirnir fara fram 11. og 12. September:

ÍA - Fylkir
FH - KA



Einnig var dregið í undanúrslit bikarkeppni kvenna:
24.Ágúst:

FH - Valur
Breiðablik - KR