KA, FH og ÍA komin áfram í undanúrslit bikarsins Þrír leikir fóru fram í átta liða úrslitum Coca Cola bikarsins í gær. Framarar mættu ÍA á Laugardalsvelli og voru betri aðilinn. Framarar spiluðu mjög vel en eins og svo oft áður þá tókst ekki að nýta færin, en þau voru fjölmörg sem þeir fengu í leiknum. Stemmingin á leiknum var góð frá stuðningsmönnum beggja liða. Fram átti svo sannarlega skilið að sigra í leiknum en töpuðu á vítaspyrnukeppni en þar ráðast úrslitin af tilviljun. Ekkert var skorað í þær 120 mínútur sem leikið var þannig að þá þurfti að stilla boltanum upp á punktinn og hefja vítaspyrnukeppni. Staðan eftir fimm spyrnur var 4-4 og því þurfti að grípa til bráðabana í keppninni. ÍA skoraði úr sínu víti á meðan Þorbjörn Atli misnotaði sjöundu spyrnu Framara sem Ólafur Þór varði. Skagamenn eru komnir í undanúrslitin en Framarar úr leik, þrátt fyrir að vera mun betri aðilinn í leiknum. En heppnin er ekki með þeim. Næsti leikur Fram er sex stiga leikur gegn Breiðablik og ef þeir spila svona í þeim leik hef ég engar áhyggjur af því að þeir vinni ekki þann leik.

Á Akureyri lék topplið fyrstu deildar, KA, á móti Keflavík. Fyrsta mark leiksins kom á 78.mínútu og voru það gestirnir sem voru þar að verki. Haukur Ingi Guðnason skoraði. En aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu heimamenn með marki frá Elmari Sigþórssyni. Sigurmark KA kom svo á 87.mínútu. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson tryggði KA áframhaldandi þáttöku í bikarnum.

FH sigraði ÍBV 1-0 í Kaplakrikanum. Atli Viðar Björnsson skoraði eina mark leiksins eftir tuttugu mínútut. Seinasti leikur átta liða úrslitanna verður leikinn í Grindavík í kvöld þegar Fylkir kemur í heimsókn. Leikurinn verður í beinni á Sýn og hefst kl.20:00. Liðin mættust fyrir skömmu í deildinni og þá unnu Fylkismenn 4-0 en það má búast við mun jafnari leik í kvöld.