Alex Ferguson sagði á blaðamannafundi í Malasíu, þar sem Man Utd eru á keppnisferðalagi þessa dagana, að nýju mennirnir, Veron og Nistelrooy, yrðu aðeins notaðir í toppleikjum næsta vetrar, þ.e. Meistaradeildinni og mikilvægum deildarleikjum. Hann sagði jafnframt að hópnum yrði skipt upp í tvö lið, þar sem annað félagið spilaði þessa mikilvægu leiki, en hitt liðið ætti svo að sjá um léttu leikina í deild og bikar.

“Ég verð með lið fyrir Meistaradeildina og stóru leikina í úrvalsdeildinni eins og gegn Arsenal, Liverpool og Leeds. Í öðrum leikjum á ég án efa eftir að skipta út mannskapnum. Það er alveg ljóst að Veron og Nistelrooy verða lykilmenn hjá okkur í Evrópuleikjunum og því verða þeir að fá góða hvíld inn á milli.

”Kannski á ég einnig eftir að breyta skipulagningunni inn á vellinum milli leikja í deildinni og ég á eftir að prófa margar uppstillingar á liðinu áður en alvaran hefst.

“Ég vil sjá hvernig liðið kemur út með þrjá menn inn á miðjunni eða með Scholes og Veron sem sóknartengiliði. Stundum á liðið ekkert eftir að líkjast United liði undanfarinna ára. Við erum komnir með kröftuga miðju og mín reynsla er sú að það lið sem stjórnar miðjunni, vinnur flesta leikina.

”Með Veron og Keane á miðjunni er ég viss um að við verðum hrikalega sterkir." sagði Ferguson.

Fyrsti leikur Man Utd á æfingaferðalaginu í austurlöndum verður í dag gegn landsliði Malasíu.