Máli konu einnar í Munchen sem ákærði Stefan Effenberg fyrir að hafa slegið sig er þau rifust um borð á veitingastað í Munchen í október síðastliðnum er lokið og dæmdi dómarinn konunni í hag og skikkaði Effenberg til þess að greiða henni 110.000 pund, takk fyrir.

Málsatvik voru þannig að þau voru að rífast um borð á veitingastaðnum og hver hefði meiri rétt á að sitja þar. Rifrildið endaði með því að hún hellti úr kampavínsglasi yfir Effenberg og hann svaraði henni að sjómannasið, eins og Árni Johnsen myndi segja, og rak henni þennan rokna kinnhest.

“Við vorum að rífast um þetta borð og þá labbaði hún upp að mér og hellti úr kampavínsglasi yfir hausinn á mér. Ég reyndi að verja mig og ég gerði það með því að slá hana.

”Það var enginn ástæða til þess að fara upp á spítala eins og hún gerði. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt en þetta var nú allt mjög saklaust. Ég skil ekki öll þessi læti," sagði Effenberg.

Effenberg ætlar sér að áfrýja úrskurðinum.