Franski miðvallarleikmaðurinn Ibrahim Ba, sem leikið hefur með Milan sl. 4 ár, hefur verið lánaður í eitt ár til liðsins hvar hann hóf feril sinn, Olympique Marseille. “Ibou” hefur fengið fá tækifæri hjá AC Milan þann tíma sem hann hefur verið þar og langar að spila aftur reglulega og hafa gaman af hlutunum - nokkuð sem ekki hefur verið tilfellið hjá honum hingað til hjá ítalska stórveldinu.

Þetta er kannski besta lausnin, en það er grátleg synd að þessi frábæri leikmaður skyldi aldrei ná að sýna það sem í honum bjó á Ítalíu. Tímabilið ‘96 - ’97 lék hann með Bordeaux og var ekki bara besti maður liðsins heldur bara langbesti maður “Championnat” þ.e. frönsku úrvalsdeildarinnar. AÐ sjá hann spila hálft mótliðið rangeygt uppúr skónum (áður en hann sendi beint á tærnar á Jean-Pierre Papin sem afgreiddi snyrtilega í autt mark) var oft á tíðum ótrúlegt. Ég hef ekki tölu á því hvað oft ég sá þetta einfalda “leikkerfi” sett upp af Ibou. Enda var hann einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu sumarið '97. Sex klúbbar buðu í hann, þar á meðal Juventus, Barcelona og Man Utd. Svo er bara ágiskunarleikur að spá í hvort honum hefði farnast betur hjá einhverju hinu liðanna . . . . . .