KR sigraði Vllaznia KR mætti í gærkvöldi albönsku meisturunum í Vllaznia. KR byrjaði leikinn af krafti, en Albanarnir lögðu alla áherslu á að verjast fyrstu mínúturnar. Leikurinn fór að langmestu fram í vítateig Vllaznia fyrsta kortérið, en Albanarnir uppskáru mark úr sinni fyrstu alvöru sókn, þegar einn leikmaður liðsins, Duro, saumaði sig í gegnum vörn KR og náði góðu skoti neðst niður í vinstra markhornið, óverjandi fyrir Bjarka Guðmundsson, sem lék í marki KR. Eftir þetta komust gestirnir meira inn í leikinn, en eftir sem áður hafði KR yfirhöndina og hélt boltanum vel innan liðsins. Undir lok leiksins var KR ekki langt frá því að jafna metin, þegar þeir fengu tvö góð færi, en inn vildi boltinn ekki. David Winnie, þjálfari KR-inga, hleypti fersku blóði í sóknina þegar hann skipti Hollendingnum Sergio Ommel út fyrir Frakkann Moussa Dagnogo. Síðari hálfleikurinn byrjaði rólega, en KR var mun betra liðið á vellinum. Á 63. mínútu lét albanska vörnin loks undan þrýtsinginum, en þá gaf Einar Þór Daníelsson góða sendingu fyrir markið og Guðmundur Benediktsson skoraði með skalla. KR bætti svo öðru marki við tíu mínútum fyrir leikslok þegar Sigurvin Ólafsson, þá nýkominn inn á sem varamaður, gaf slaka sendingu á Moussa Dagnogo. Moussa rétt náði til knattarins áður en hann fór útaf, gaf aftur fyrir sig á Sigurvin sem kom og hamraði boltann efst í hægra markhornið, stórglæsilegt mark. Síðari leikur liðanna fer fram að viku liðinni á heimavelli Vllaznia, í Albaníu.